Um áramótin mun útsvar Grindavíkurbæjar lækka úr 14,48% í 14,38%. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að með þessari lækkun sé verið að koma til móts við bæjarbúa sem hafa tekið þátt í hagræðingu undanfarin ár. „Við höfum verið eins og öll önnur sveitarfélög að hagræða og laga til í rekstrinum í þrjú ár og það er að skila árangri. Við erum að reyna að skila einhverju til baka. Það verður afgangur á þessu ári og við áætlum að vera með yfir 100 milljónir í afgang á næsta ári.“

Róbert segir að ýmislegt hafi verið gert til að auka tekjur bæjarfélagsins. Hann hefur sjálfur farið á milli báta í Grindavík og kynnt bæinn fyrir sjómönnum. „Ég hef hvatt þá til þess að flytja til Grindavíkur og búa með okkur í þessu sjávarútvegssamfélagi sem hentar þeim vel. Það er gríðarstór floti í Grindavík og við munum aldrei ná að manna hann eingöngu með heimamönnum. Núna eru um 30-35% af sjómönnum sem gera út á Grindavíkurbátum. Aðrir ferðast á milli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.