*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 13:58

Fær kauprétt í Össuri

Sveinn Sölvason fær að kaupa 500 þúsund hlutabréf í Össuri fyrir 83 milljónir króna eða 7,82 danskar krónur á hlut.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Sveinn Sölvason, fjármálastjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar, fékk í dag kauprétt að hálfri milljón hluta í félaginu á genginu 7,82 danskar krónur á hlut. Miðað við það nemur verðmæti kaupréttarins 83 milljónum króna. Kauprétturinn er hér umreiknaður í íslenskar krónur og er gengi bréfanna miðað við það 166,18 íslenskar krónur á hlut. Sveinn á nú kauprétt að 600 þúsund hlutum í Össuri. 

Fram kemur í tilkynningu frá Össuri að lokauppgjör kaupréttanna er frá 22. maí árið 2016 til 21. maí árið 2017.

Sveinn tók við starfi fjármálastjóra Össurar af Hjörleifi Pálssyni um síðustu mánaðamót. Hjörleifur hafði þá unnið hjá Össuri og stýrt fjármálasviði fyrirtækisins í 12 ár. 

Gengi hlutabréfa Össurar hefur ekkert breyst á milli daga á markaði í Danmörku en gengi þess er nú 7,75 danskar krónur á hlut. Það hefur hins vegar hækkað um 1,08% í Kauphöllinni hér og stendur það nú í 187 krónum á hlut.

Stikkorð: Össur Sveinn Sölvason