*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Fólk 8. nóvember 2020 19:01

„Fær kraftinn úr náttúrunni"

Tinna Traustadóttir, nýr framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, fór fyrst að stunda fjallgöngur þegar sneri heim eftir 14 ár úti.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr framkvæmdastjóri orkusölusviðs Landsvirkjunar segir sömu handtökin í alþjóðlegri markaðssetningu á orku og lyfjum, en hún var lengi hjá Actavis. Tinna fór að stunda fjallgöngur þegar hún flutti heim.

„Inni á sviðinu sem ég tek nú við er bæði viðskiptastýring og viðskiptagreining, en starfið snýst um að bera ábyrgð á sambandinu við viðskiptavinina og reyna að styðja við þá, enda eru krítískir tímar og miklar breytingar á þeim mörkuðum sem við störfum á," segir Tinna Traustadóttir, nýr framkvæmdastjóri Orkusölusviðs hjá Landsvirkjun.

„Einnig snýst þetta um að greina landslagið á raforkumarkaði og þróa þjónustuna þannig að við getum tekið á móti nýjum tækifærum og viðskiptavinum. Við erum með fáa viðskiptavini, 10 þeirra eru stórnotendur, þar af fjögur gagnaver, og sjö sem starfa á heildsölumarkaði."

Tinna er lærður lyfjafræðingur og starfaði hún hjá Actavis og tengdum félögum í 14 ár, þar af 9 í Bandaríkunum.

„Ég segi alltaf að þetta séu sömu handtökin að vera í svona alþjóðlegri markaðssetningu, en að vinna hjá Actavis var ótrúlega mikill lærdómsferill. Þegar ég byrja í erlendri markaðssetningu hjá Delta, forvera Actavis, þá vorum við með innan við 200 manns í einni starfstöð á Íslandi, og fyrirtækið með 50 milljónir evra í tekjur. Svo eru 25 alþjóðleg fyrirtæki með 11 þúsund starfsmenn í 30 löndum sameinuð inn í félagið og það verður eitt af stærstu samheitalyfjafyrirtækjum í heimi," segir Tinna.

„Við flytjum til Bandaríkjanna árið 2005, en þá er maðurinn minn, Ólafur Heiðar Þorvaldsson, að fara í sérnám í barnalækningum og ég vinn fyrir salti í grautinn. Þegar ég byrja úti vorum við með einn starfsmann þar fyrir, en síðan voru þrjú fyrirtæki á Bandaríkjamarkaði keypt. Við bjuggum í fallegum bæ í Connecticut í Bandaríkjunum þar sem ég vann oft heima hjá mér, en síðan vorum við með starfstöð í New Jersey sem ég fór á í hverri viku, sem var góð blanda, auk margra viðskiptaferðalaga."

Eftir að sérnámi Ólafs Heiðars lauk ákvað fjölskyldan, sem þá var nýbúin að stækka, að flytja aftur heim. „Ég er mikil fjölskyldukona, en við eigum tvö börn, 18 ára strák og svo 6 ára stúlku sem ég eignaðist úti, svo það má segja að ég sé með tvö einkabörn. Þarna var ég búin að vera í mikilli vinnu í mörg ár, svo ég ákvað að vera ekkert að flýta mér að leita mér að vinnu hérna heima, en starfið hér hjá Landsvirkjun var það fyrsta sem ég sótti um," segir Tinna.

„Þessi ár sem við bjuggum úti ferðuðumst við mjög mikið, það var stutt að fara til Boston og New York en síðan fórum víð í alls kyns ævintýraferðir, til að mynda í loftbelg yfir vínræktarhéraðið Napa Valley. Áður en ég flutti út var ég ekkert í fjallgöngum, en núna sæki ég mikið í þetta, því maður fær kraftinn úr náttúrunni þegar maður er í annasömu starfi."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.