*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Erlent 23. október 2019 11:51

Fær milljarða þrátt fyrir brottrekstur

Hin litríki stofnandi WeWork mun fá tæplega 2 milljarða dollara í sinn hlut þrátt fyrir að hafa verið rekinn frá fyrirtækinu

Ritstjórn
Aðsend mynd

Adam Neumann, stofnandi og fyrrum forstjóri bandaríska fyrirtækisins WeWork mun fá um 1,7 milljarða dollara í sinn hlut eftir að fyrirtækið samþykkti 5 milljarða dollara, um 210 milljarða króna, björgunarpakka frá japanska fjárfestingabankanum SoftBank í nótt. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum hefur WeWork átt í töluverðum vandræðum eftir að skráningarlýsing fyrirtækins birtist um miðjan ágústmánuð sem endaði með því að verðmat þess fór úr 47 milljörðum dollara niður í 8 milljarða og horfið var frá áformum um skráningu. 

Sjá einnig: WeWork í vanda statt

SoftBank var fyrir einn stærsti eigandi WeWork en mun nú fara með um 80% hlut. Fjárfestingarbankinn mun leggja fyrirtækinu til 5 milljarða dollara auk þess sem 3 milljarða til viðbótar munu renna til hluthafa í skiptum fyrir hluti þeirra í fyrirtækinu. Neumann sem hrökklaðist úr starfi forstjóra eftir að hver skandallinn rak annan mun fá um milljarða dollara fyrir hlutabréf sín í fyrirtækinu, hálfan milljarð til að greiða upp lán og tæplega 200 milljónir sem hann fær í greiðslur sem fyrir ráðgjöf sem hann hefur veitt SoftBank á síðustu fjórum árum. 

Sjá einnig: Skakkur á skrifstofunni

Samkvæmt frétt CNN ríkir töluverð óánægja meðal starfsmanna WeWork með hve háa greiðslu Neumann fær í sinn hlut enda er honum að mörgu leiti kennt um hvernig komið er fyrir fyrirtækinu. Í skilaboðum sem gengu starfsmanna á milli var meðal annars lagt til að hann myndi deila helmingnum af greiðslunni með starfsmönnum WeWork auk þess sem myllumerkið „WEgotplayed“ gekk einnig starfsmanna á milli. 

Stikkorð: WeWork