Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst koma á fót stórtækri fjöldaframleiðslu á rafbílum eftir um þrjú ár þar sem stefnt er á framleiðslu um 500.000 bíla á ári. Verksmiðjan hefur verið í pípunum um nokkurt skeið en fyrr í þessum mánuði tilkynnti fyrirtækið að staðsetning hefði verið valin fyrir verksmiðjuna í Nevada ríki í Bandaríkjunum.

Fram hefur komið að Nevada veitti Tesla skattalega hvata sem nemur í kringum 1,25 milljarða Bandaríkjadollara til að fá verksmiðjuna til sín, en það er stærsti hvatapakki sem ríkið hefur veitt í sögu þess. Til þess að hvatarnir geti komið til áhrifa þarf Tesla fyrst að fjárfesta í Nevada fyrir um 3,5 milljarða Bandaríkjadollara en að auki hefur rafbílaframleiðandinn samþykkt að veita 37 milljónir dollara til skóla í Nevada á næstu fimm árum.