Kötlu matvælaiðju ehf. ber ekki að bæta fiskvinnslunni Tor ehf. tjón sem hún varð fyrir vegna gallaðs íblöndunarefnis sem síðarnefnda fyrirtækið keypti af því fyrrnefnda. Krafa Tor hljóðaði upp á tæplega 13 milljónir króna auk skaðabótavaxta og dráttarvaxta. Katla var hins vegar sýknað þar sem fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur taldi kröfuna fyrnda.

Sem fyrr segir er Tor fiskvinnsla en vinnslan hefur meðal annars selt afurðir sínar til Bretlands. Við vinnslu fisksins hefur þar til gerðu efni verið bætt við afurðina með það að marki að þyngja fiskinn. Í málsatvikalýsingu kemur fram að það hafi verið gert í samráði við kaupendur.

Á haustmánuðum 2014 keypti Tor af Kötlu slíkt efni en það átti að vera sambærilegt öðru efni sem keypt hafði verið frá Hollandi. Hálfu ári áður hafði Tor prófað efnið og það reynst ágætlega. Þegar framleiðsla hófst með hinu nýja efni reyndist það ekki gefa jafn góða raun og fyrra efnið. Í stað þess að fiskurinn reyndist ferskur var hann dragúldinn. Samkvæmt könnun rannsóknarfyrirtækis ilmuðu fyrri bitar eins og soðin mjólk eða vottur af vanillu. Seinni sendingin hafi hins vegar minnt á sigin fisk eða kæsta skötu.

Kaupandinn ytra hafnaði því að taka á móti vörunni enda gat hún illa nýst til manneldis. Það sem átti því að vera herramannsmatur fyrir Tjalla endaði sem hráefni í dýrafóður en með því tókst Tor að takmarka tjón sitt. Á endanum fékk Tor hluta tjónsins bætt úr vátryggingu sinni vegna beins tjóns af atburðinum en eftir stóð óbeint tjón.

Máli vísað frá og stefnt of seint inn aftur

Málið var upphaflega höfðað í mars 2017 til heimtu á tjóni vegna skertrar verðmætaaukningar á tilteknu tímabili þar sem Tor gat ekki notað íblöndunarefni við framleiðslu sína. Við það rýrðist þyngd fisksins um einn tíunda. Þá hefði vörusala til Bretlands einnig fallið niður á ákveðnu tímabili og krafðist félagið bóta vegna þessa tveggja þátta.

Með úrskurði í október 2018 var dómsmálinu vísað frá. Dómurinn sló því föstu að umrætt bætiefni hefði vissulega verið haldið galla. Hins vegar var talið skorta á að umfang tjónsins væri rökstutt með nægilegum hætti. Í kjölfarið var dómkvaddur matsmaður til að meta umfang tjónsins og taldi hann það vera tæplega 13 milljónir króna.

Þegar matið lá fyrir í janúar á þessu ári stefndi Tor málinu til dóms á nýjan leik eftir að það lá fyrir að ekki yrði óskað yfirmats. Var það gert í mars á þessu ári.

„Fyrningarfrestur á kröfu [Tor], sem er skaðabótakrafa, er fjögur ár […]. Þegar [Tor] höfðaði hið fyrra mál 14. mars 2017 var fyrningu kröfunnar slitið […] og hófst þá nýr fjögurra ára fyrningarfrestur. Því máli lauk hins vegar ekki með efnisdómi heldur var því vísað frá dómi,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Í dóminum segir enn fremur að þegar svo hátti til geti kröfuhafi höfðað nýtt mál þótt fyrningarfrestur sé liðinn enda sé það gert innan sex mánaða.

„Samkvæmt þessu var krafa [Tor] fyrnd í síðasta lagi um mitt ár 2019 þar sem [félagið] nýtti sér ekki það úrræði að höfða að nýju mál, en það hefði [það] þurft að gera eigi síðar en 11. mars 2019,“ segir í dóminum. Katla var því sýknað og Tor dæmt til að greiða eina milljón króna í málskostnað.