Íslandsbanki hefur fært virði eigin fjár Borgunar í reikningum sínum upp um 5,4 milljarða króna vegna sölu Visa Europe Ltd. til Visa Inc. Í myndbandi sem birt hefur verið á vefsíðu Íslandsbanka segir Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, að salan sé ekki frágengin og því séu áhrifin ekki komin á hreint ennþá.

„Hins vegar tekur bankinn þetta til greina í ársreikningi 2015 á þann máta að hlutaféð í félaginu er fært upp um 5,4 milljarða og hefur það bein áhrif á eigið fé. Þetta hefur hins vegar ekki áhrif á rekstrarafkomuna á árinu 2015 en mun koma til með að hafa áhrif á afkomuna 2016 ef salan gengur í gegn,“ segir Jón Guðni.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hagnaðist Íslandsbanki um 20,6 milljarða króna á síðasta ári.