Tæknirisinn Apple hyggst færa hluta af framleiðslu sinni á iPhone símum til Indlands.

Hingað til hefur meginþorri iPhone síma verði framleiddir í Kína en vegna síaukinnar spennu milli bandarískra og kínverskra yfirvalda vill Apple færa hluta framleiðslunnar annað.

Harkalegar sóttvarnaraðgerðir yfirvalda í Kína til að forðast að eitt einasta Covid smit greinist í landinu hafa einnig gert framleiðslufyrirtækjum í landinu lífið leitt.

Verkefnið er þó langt því frá einfalt enda um 98% af iPhone símum framleiddir í Kína. Í umfjöllun Bloomberg er áætlað að það geti tekið átta til tíu ár að færa þó ekki nema 10% af framleiðslunni frá Kína til annarra ríkja.