Fjögur bandarísk eignarstýringarfyrirtæki hafa fært niður fjárfestingar sínar í Uber samkvæmt frétt Wall Street Journal. Þrjú fyrirtækjanna Vanguard Group, Principal Funds og Hartford Funds færðu fjárfestinguna niður um 15% og verðmeta nú Uber á 41,46 dollara á hlut.

Fjórða fyrirtækið, T. Rowe Price Group færði fjárfestingu sína niður um 12% og verðmetur fyrirtækið á 42,7 dollara á hlut.

Uber hefur verið í töluverðum vandræðum á þessu ári. Fyrirtækið hefur átt í deilum við stjórnvöld í fjölda borga um heim allan. Þá höfðaði Waymo sem er deild innan Alphabet um þróun á sjálfkeyrandi bílum mál á hendur fyrirtækinu.

Til að bæta gráu ofan á svart þá neyddist Travis Kalanick, stofnandi Uber til þess að segja af sér. Kom uppsögnin í kjölfarið á ásökunum um kynferðislega áreitni á skrifstofum Google og að vinnustaðarmenning fyrirtækisins væri langt frá því að vera eins og best verður á kosið.