Í síðustu viku setti tryggingafélagið VÍS í loftið nýja lausn sem gerir viðskiptavinum kleift að hefja viðskipti við félagið í gegnum netið, og koma þannig í viðskipti án þess að þurfa að prenta, undirrita, skanna, og senda skjöl, eða mæta í eigin persónu til að skrifa undir. Í stað undirskriftar eru rafræn skilríki notuð til að staðfesta viðskiptin formlega.

„Verkefnið sem við erum að setja í loftið um þessar mundir snýst um það að gera viðskiptavinum okkar kleift að koma með algerlega rafrænum hætti í viðskipti til okkar. Viðskiptavinir geta óskað eftir tilboði og skrifað undir alfarið rafrænt í gegnum netið. Það hefur hingað til verið óþarflega tímafrekt fyrir viðskiptavini að koma í viðskipti, þetta hafa verið mikil samskipti fram og til baka. Við erum að vinna að því að fækka flækjunum, þannig að þeir viðskiptavinir okkar sem það kjósa geti gert þetta rafrænt,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar VÍS.

Þolinmæði fyrir flækjustigi sífellt minni
VÍS vefvæddi fyrir stuttu annan grundvallarþátt í samskiptum tryggingafélaga við viðskiptavini sína: tilkynningar um tjón, en félagið fær um 40 þúsund slíkar á ári. „Í sumar settum við í loftið rafrænar tjónstilkynningar þannig að viðskiptavinir okkar geti tilkynnt öll tjón á netinu og fengið leiðbeiningar um hvaða upplýsingar þurfa að koma fram til að tilkynna tjón. Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. Við sjáum til dæmis að yfir 70% viðskiptavina okkar sem lenda í ferðatjónum kjósa að nota þessa leið til að tilkynna tjón.“

Guðný Helga segir bankana hafa rutt brautina í vefvæðingu fjármálaþjónustu, en tryggingafélögin séu nú að taka við sér. „Það má eiginlega segja að tryggingafélögin séu á eftir bönkunum hvað varðar stafræna þjónustu. Það er hins vegar gríðarlega mikið að gerast í þessum geira akkúrat núna. Mörg fjártæknifyrirtæki eru að beina sjónum sínum að tryggingafélögum og þetta miðar allt að því sama: að gera þjónustuna bæði aðgengilegri og einfaldari fyrir viðskiptavini,“ segir hún, og bætir við að eftir því sem framboð stafrænna lausna almennt aukist, verði þolinmæði viðskiptavina fyrir flækjustigi sífellt minni.

Nýsköpunarhraðall innan aldargamals fyrirtækis
Ofangreindar tvær nýjungar eru til komnar vegna nýjungar hjá VÍS, sem lýsa má sem eins konar nýsköpunarhraðli innan fyrirtækisins. Verkefnin eru unnin í sprettum; 16 vikna löngum tímabilum þar sem starfsfólk alls staðar að úr fyrirtækinu fer úr sínum hefðbundnu störfum og vinnur saman að tilteknu verkefni. „Þetta er mikil menningarbreyting í rauninni, hvernig við erum að nálgast þessa umbreytingu. Við erum 101 árs gamalt rótgróið félag og erum að vinna þessar breytingar hratt. Þetta fyrirkomulag þýðir að það er mjög skýr fókus á hvert viðfangsefnið er. Starfsfólkið kemur 100% inn í verkefnið,“ segir Guðný Helga.

„Þetta er mikið starfsþróunartækifæri fyrir starfsmenn. Þeir vinna með öðruvísi vinnulagi, í afmarkaðan tíma, að ákveðinni lausn. Í því felst að starfsmenn tileinka sér nýja færni og þekkingu á tiltölulega skömmum tíma. Það hefur verið rosalega gaman að fylgjast með starfsmönnum vaxa og dafna í þessum verkefnum, og að þeim loknum ganga aftur í fyrri störf reynslunni ríkari.“

Tímarammi verkefnanna er skýr og fyrirfram ákveðinn, og breytilegi þátturinn, sem ræðst af framvindu verkefnisins, er því í raun lausnin sjálf. Eftir að ákveðnu grunnmarkmiði er náð, notar teymið þann tíma sem eftir er til að byggja ofan á og betrumbæta lausnina, þar til tíminn rennur út. „Við leggjum mikla áherslu á notendaupplifun í hönnuninni, enda mun fólk alltaf hundsa hönnun sem hundsar notendaupplifun,“ segir Guðný að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .