Hugbúnaðarfyrirtækið Taktikal hannar lausnir sem gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að bjóða viðskiptavinum og skjólstæðingum að staðfesta viðskipti, umsóknir og fleira með rafrænni undirskrift í stað útprentaðs skjals.

Fyrirtækið var stofnað snemma árs 2017, og í vor hlaut það vaxtasprota Samtaka iðnaðarins fyrir mikinn vöxt milli ára. Félagið opnaði nýverið skrifstofu í Kaupmannahöfn, til viðbótar við hina íslensku. Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins, segir það hafa verið á réttum tíma á réttum stað með sínar lausnir.

Valur segir mikil tækifæri fólgin í því að nútímavæða undirskriftir til fullgildingar samningum, sem í dag séu mestmegnis framkvæmdar á sama hátt og í árdaga internetsins fyrir um aldarfjórðungi síðan, á meðan flestu öðru sem viðkemur samskiptum í atvinnulífinu hafi verið gjörbylt síðustu ár og áratugi.

Til samanburðar hafi þinglýsingar verið rafrænar í Danmörku í áratug, og það land sem hvað lengst er komið í þessum efnum, Eistland, hafi að eigin sögn sparað um 2% landsframleiðslu á ári – sem á Íslandi væru yfir 50 milljarðar króna – með innleiðingu rafrænna undirskrifta.

Eins og að póstleggja geisladiska
Í dag er oftast boðið upp á að senda skjöl með tölvupósti í stað þess að skila þeim á pappírsformi, en eftir sem áður þarf að undirrita þau, sem þýðir að prenta þarf skjalið út, undirrita og skanna síðan inn aftur, áður en hægt er að senda það.

Valur segir þetta svara til þess að senda stafræn gögn með því að skrifa geisladiska og senda í bréfpósti. „Þetta er svona millibilsástand sem er hálfstafrænt, en samt ekki, því það þarf alltaf að skanna inn og prenta út. Eftir því sem við komumst næst eru 15-20 þúsund ferli á Íslandi – umsóknir, eyðublöð og annað – sem eru ekki orðin rafræn, og það er bara það sem er aðgengilegt öllum á vefnum.“

Fyrirtæki eigi það til að vanmeta eða hreinlega yfirsjást þessi þáttur. Gríðarleg fyrirhöfn og fjármunir séu jafnvel sett í aðra snertifleti við viðskiptavini á borð við vefsíðu og þjónustuver, á meðan enn sé gerð krafa um undirritað pappírseyðublað til að klára málið. „Fyrir flestum er þetta minnst spennandi hlutinn af ferlinu. Litla leiðinlega formsatriðið sem enginn nennir að spá í.“

„Venjulegt fólk einfaldlega nennir þessu ekki“
Önnur neikvæð áhrif þessa fyrirkomulags eru þau að fyrirhöfnin geri það að verkum að neytendur séu síður tilbúnir til að skipta um þjónustuveitendur, jafnvel þegar þeir bjóði betur. Þannig sé grafið undan virkri samkeppni. „Ef þú ætlar í viðskipti við eitthvert fyrirtæki, þá strandar það oft á því að þú þarft að vesenast við að fylla út allskonar gögn og sendast með þau, frekar en að þjónustan eða verðið séu ófullnægjandi. Venjulegt fólk einfaldlega nennir þessu ekki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .