Aðilar vinnumarkaðarins hafa tjáð ríkisstjórninni að umgjörð um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og efnisatriði nýrra kjarasamninga liggi í meginatriðum fyrir. Ríkisstjórnin segir í tilkynningu að hún vilja greiða fyrir gerð samninganna og sé hún reiðubúin til að veita skuldbindandi fyrirheit um nokkkur atriði. Aðilar vinnumarkaðarins funduðu í gærkvöldi og aftur í dag. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is , vona að kjarasamningar náist í dag.

Á meðal þess sem ríkisstjórnin leggur á vogarskálarnar eru lækkun á tekjuskatti einstaklinga úr 25,8% í 25% heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu í áföngum með einföldun, fækkun skattþrepa og lækkun jaðarskatta að markmiði. Í ljósi stöðu kjaraviðræðna verði lagt fram frumvarp þar sem efri mörk lægsta þreps tekjuskatts hækka í 290 þúsund krónur og skatthlufall í miðþrepi verður 25,3%. Í þessu felst að skattalækkanir muni koma hinum tekjulægri til góða jafnframt því að einfalda og auka skilvirkni skattkerfisins.

Þá er stefnt að því að næstu tvö ár verði gjaldskrárhækkanir ríkisins undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Þær munu miðast við þær forsendur sem kjarasamningarnir byggja á. Náist kjarasamningar til lengri tíma með stöðugleika að leiðarljósi verði stefnt að því að gjaldskrárhækkanir ríkisins verði innan þeirra marka út samningstímann.

Ríkisstjórnin ætlar jafnframt beita sér fyrir því að fyrirtæki í ríkiseigu, þ.m.t. orkufyrirtækin, gæti ítrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar á komandi ári.

Þá er stefnt að því að komið á fastanefnd um samskipti hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins. Samskiptin munu m.a. miða að virku aðhaldi í verðlagsmálum. Endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu verði jafnframt unnin í samráði við samtök atvinnuveitenda og launþega.