*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 9. september 2018 13:29

Færðu áhersluna of hratt á netið

Stjórnarformaður Icelandair segir að sölustarf hafi færst í of hratt á netið á kostnað annarra söluleiða.

Ritstjórn
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair lokaði söluskrifstofum félagsins erlendis á síðasta ári en innleiðing breytinganna hefur ekki gengið sem skyldi. „Á árinu 2017 var mikill þrýstingur á að lækka kostnað hjá félaginu. Það var verið að leita leiða og ein hugmyndin sem var síðan framkvæmd var að loka söluskrifstofum og flytja þessa starfsemi alla til Íslands. Hugmyndin sem slík var mjög góð en hún byggði kannski á ákveðnum forsendum um að þessar söluskrifstofur væru orðið úrelt fyrirkomulag, þetta væri allt að fara á netið og þessu væri bara stýrt frá Íslandi og svo framvegis. Í raun er það þannig að auðvitað er stækkandi hluti að fara á netið en það gerist yfir tíma. Það er töluvert í land að það sé allt komið þangað,“ segir Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group.

Þeir starfsmenn Icelandair sem voru á mörkuðum erlendis hefðu ekki fengið þann stuðning sem þurfti til að fylgja eftir þeim hluta viðskiptavina félagsins sem kaupa ekki flugfargjöld í gegnum netið.

Áhersla hafi færst of mikið í átt að því að efla stafrænt sölu- og markaðsstarf félagsins á kostnað annarra söluleiða. „Því miður þá var í raun og veru allt of mikil áhersla sett á annan hlut þess sem þurfti að gera. Það var í raun og veru horft til þess að allt myndi flytjast á netið en enginn stuðningur við fólkið sem að hefði átt að vera að sinna hinum hlutanum,“ segir Úlfar. Á fyrri hluta ársins hafi farið að koma í ljós að breytingarnar skiluðu ekki tilætluðum árangri. „Því miður var ekki gripið til þeirra aðgerða sem þurft hefði. Það leiddi til þess að gerðar voru breytingar á sölu- og markaðssviðinu í júlí þar sem skipt var um framkvæmdastjóra.“

Breytingar á leiðakerfinu ýktu vandann

Þá hafi breytingar á leiðakerfi Icelandair á þessu ári gert það að verkum að misvægi hafi myndast í flugi milli Íslands og Evrópu annars vegar og Íslands og Bandaríkjanna hins vegar. Fimm nýjum áfangastöðum hafi verið bætt við í Bandaríkjunum en ekki hafi verið aukið við  flugumferð  til Evrópu með sama hætti. „Hugmyndin var sú að hægt væri að selja fleiri ferðir frá Ameríku til Íslands,“ segir Úlfar. Svo kom á daginn að það hafi reynst erfitt fyrir farþega frá Bandaríkjunum að bóka flug frá Íslandi til Evrópu. „Þannig að það verður til misvægi í kerfinu. Það er ekki hægt að segja að breytingin á kerfinu sem slík hafi verið vandamálið heldur ýkir hún það af því að sölukerfið var ekki í virkni,“ segir Úlfar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.