*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 29. september 2018 11:05

Færðu Gray Line niður um 35%

Framtakssjóðurinn Akur slhf. færði hlut sinn í sérleyfishafa Gray Line á Íslandi niður um hálfan milljarð króna.

Ástgeir Ólafsson
Aðsend mynd

Framtakssjóðurinn Akur fjárfestingar slhf. sem rekinn er af Íslandssjóðum tapaði 381 milljón króna á árinu 2017 samanborið við 162 milljóna tap árið 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins fyrir síðasta rekstrarár. Tap sjóðsins samanstendur af 113 milljóna króna rekstrargjöldum auk þess sem gangvirðisbreyting fjárfestinga var neikvæð um 274 milljónir en vaxtatekjur námu 6 milljónum króna.

Keyptu Gadus á tæplega 2,5 milljarða

Í lok árs námu fjárfestingar Akurs í félögum 4.982 milljónum króna en voru 2.044 milljónir í lok árs 2016. Félagið fjárfesti í tveimur nýjum félögum á árinu. Annars vegar keypti sjóðurinn 18,3% í hlut í Ölgerðinni fyrir 1.830 milljónir króna en sá hlutur var færður niður um 116 milljónir króna frá kaupunum og nam bókfært virði hlutarins 1.714 milljónum króna í lok árs.

Þá keypti Akur einnig 53,01% hlut í Gadus sem var dótturfyrirtæki Icelandic Group í Belgíu en félagið er framleiðslu-, sölu og dreifingaraðili á ferskum sjárvarafurðum. Akur á hlut sinn í gegnum Steinsali ehf. sem á Gadus að fullu en aðrir eigendur þess félags eru Brim hf., Fishproducts Iceland ltd., Hraðfrystihús Hellissands hf., Kambur hf., KG fiskverkun ehf., Oddi hf., Sæmark-Sjávarafurðir ehf. og Þorbjörn hf. Þegar greint var frá kaupunum í júlí á síðasta ári var kaupverðið ekki gefið upp en samkvæmt ársreikningi Akurs borgaði sjóðurinn 1.320 milljónir fyrir hlut sinn. Þar sem gagnvirði hlutarins er óbreytt frá kaupunum nam heildar kaupverð Steinsala á Gadus um 2.490 milljónum króna.

Færður niður um hálfan milljarð

Fyrir utan Steinsali á Akur 35,27% hlut í Fáfni Offshore, 13,47% hlut í HSV eignarhaldsfélagi og 49% hlut í Allrahanda GL, sérleyfishafa Gray Line á Íslandi. Félagið festi kaup á hlutnum í Allrahanda árið 2015 fyrir 1,4 milljarða króna en bókfært verð félagsins í lok árs nam 900 milljónum króna í bókum Akurs. Var eignarhluturinn því færður niður um 500 milljónir króna. Gangvirði félagsins var raunar fært niður um 582 milljónir en uppgjör vegna málarekstrar Allrahanda GL gegn Strætó BS leiddi til 82 milljóna hækkunar á gangvirði. Var gangvirði félagsins því fært niður um rúmlega 35%. Í ágúst á síðasta ári var greint frá því að Allrahanda GL hygðist sameinast Iceland Travel ehf. sem er að fullu í eigu Icelandair Group. Í lok október var hins vegar fallið frá þeim áformum og var ástæðan rakin til niðurstöðu  áreiðanleikakönnunar. Allrahanda GL hefur ekki enn skilað ársreikningi fyrir árið 2017.

Allrahanda GL er ekki eina rútufyrirtækið sem fært var niður í bókum framtakssjóða á síðasta ári. Framtakssjóðurinn SÍA II færði 35% hlut sinn í Kynnisferðum niður um 282 milljónir króna á síðasta ári og nam bókfært virði þess hlutar 945 milljónum króna í lok árs. Samtals færðu sjóðirnir því rútufyrirtækin tvö niður um 782 milljónir króna í bókum sínum á síðasta ári.

Hlutur í HS Veitum færður verulega upp

Eins og áður segir á Akur tæplega 13,5% hlut í HSV Eignarhaldsfélagi en það félag á ríflega 34% hlut í HS Veitum. Bókfært virði þess hlutar nam 509 milljónum króna í lok árs 2016 en nam 913 milljónum í lok síðasta árs. Hluturinn var því færður upp um 404 milljónir króna eða um tæp 80%. Bókfært virði hlutar Akurs í Fáfni Offshore var óbreytt í lok árs og nam 135 milljónum króna. Hluturinn var keyptur árið 2014 fyrir rúmlega 1,2 milljarða króna og hefur bókfært virði hans því lækkað um tæp 90%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Íslandssjóðir Gadus Gray Line Akur