Sjóðurinn Horn III, í stýringu hjá Landsbréfum, hagnaðist um 3,6 milljarða króna í fyrra eftir að hafa bókfært 260 milljóna tap árið 2020. Hagnaðurinn stafar einkum af því að 25% hlutur sjóðsins í Ölgerðinni var færður upp um 110% á milli ára.

Fjórðungshlutur Horns III í Ölgerðinni var bókfærður á 5,0 milljarða króna í árslok 2021 en til samanburðar var hluturinn metinn á 2,4 milljarða í lok árs 2020. Gera má ráð fyrir að virði hlutarins sé nær 6,3 milljörðum í dag miðað við útboðsgengi Ölgerðarinnar í yfirstandandi hlutafjárútboði.

Eignasafn Horns III, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, var bókfært á 10,1 milljarð króna í lok síðasta árs. Eignarhluturinn í Ölgerðinni vegur því um helming af eignasafninu. Hin félögin sem Horn III hefur fjárfest í eru Pac1501, móðurfélag Hagvagna og Reykjavík Sightseeing, Lífland, Bílaleiga Flugleiða (Hertz á Íslandi) og Eldum rétt.

Horn III og sjóðurinn Akur, í rekstri íslandssjóða, leiddu kaup á 70% hlut í Ölgerðinni haustið 2016. Hluturinn var fyrst færður til bóka í ársreikningi Horns III fyrir árið 2017 og var þá metinn á 1,9 milljarða. Fjórðungshlutur í Ölgerðinni hefur því verið færður upp um 164% á fjórum árum sem samsvarar 27% árlegri ávöxtun.

Hlutafjárútboð Ölgerðarinnar hófst í morgun og stendur yfir til kl. 16 á föstudaginn, 27. maí. Núverandi hluthafar selja þar 29,5% hlut í beinu hlutfalli við eign sína í félaginu. Fáist full áskrift í útboðinu þá mun Horn III, stærsti hluthafi Ölgerðarinnar, fá minnst 1,9 milljarða króna fyrir 7,5% hlutinn sem sjóðurinn selur í útboðinu.