*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Erlent 5. júlí 2017 09:48

Færeyingar skipta um skoðun

Hugmyndir um að banna erlenda fjárfestingu í færeyskum sjávarútvegi dregnar til baka því brýtur gegn samningi við Ísland og stjórnarskrá.

Ritstjórn
Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hitti Sigurð Inga Jóhannson, þegar hann starfaði sem sjávarútvegsráðherra Íslands
Aðsend mynd

Afstaða nefndar færeyska lögþingsins sem fjallar um lög um sjávarútvegsmál og mögulegar breytingar á þeim virðist hafa breytt um skoðun á eignarhaldi erlendra aðila í færeyskum sjávarútvegi. Voru settar fram þær tillögur í nefndinni að meina erlent eignarhald í sjávarútvegi Færeyja, en nú virðist sem fallið hafi verið frá þeim hugmyndum að því er Morgunblaðið greinir frá.

Virðist umsögn skrifstofu færeyska þingsins haft þar áhrif, sem benti á að slíkt ákvæði bryti í bága við bæði færeysku og dönsku stjórnarskrána, auk mannréttindasáttmálans. Jafnframt bryti slíkt ákvæði gegn Hoyvíkursamningnum sem Íslendingar og Færeyingar eiga aðild að, en hann tryggir gagnkvæmt viðskiptafrelsi milli þjóðanna.

Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur þó sagt að það komi til greina að segja upp samningnum, því hann skili litlum ávinningi til Færeyja.