Ný stjórn tveggja hægriflokka og Miðflokks Færeyja hyggst opna nýja sendistofu sína í Ísrael í umdeildri höfuðborg landsins Jerúsalem og verða þar með fyrsta Evrópulandið með sína sendifulltrúa í borginni.

Eftir kosningar sem voru í Færeyjum í lok ágúst var mynduð ríkisstjórn Þjóðarflokksins, Sambandsflokksins og Miðflokksins, en flokkarnir þrír eru með samtals 17 af 33 þingmönnum á færeyska lögþinginu.

Í stjórnarsáttmála flokkanna er kveðið á um að Færeyjar muni opna sendiskrifstofu í Ísrael, en í kjölfar myndunar stjórnarinnar 18. september síðastliðinn tók Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, við stjórn heimastjórnarinnar sem Lögmaður Færeyja.

Formaður Miðflokksins fer með utanríkismál

Þjóðarflokkurinn, sem er frjálslyndur íhaldsflokkur sem styður aukna sjálfstjórn og að lokum sjálfstæði Færeyja, fékk 8 þingmenn, Sambandsflokkurinn, sem er með svipaða stefnu fyrir utan að vill halda sambandinu við Dani og sækir meiri stuðning í sveitum og dreifbýli, er með 7 þingmenn en Miðflokkurinn, sem sækir stuðning til trúaðri Færeyinga, fékk 2 þingmenn.

Formaður síðastnefnda flokksins, Jenis av Rava tók við utanríkismálum í stjórninni, sem annars er mikið til sinnt af Dönum, og hefur hann nú ákveðið að nýja sendistofan verði í höfuðborg Ísrael, Jerúsalem.

Þar með yrðu Færeyjar fyrsta land Evrópu til að hafa sendifulltrúa sína í Ísrael í Jerúsalem sem verið hefur höfuðborg ríkisins síðan austurhluti borgarinnar var einhliða innlimaður úr umdeildu svæðum Vesturbakkans. Flest ríki önnur en Bandaríkin, sem færðu sendiráð sitt í kjölfar valdatöku Donald Trump og Guatemala, halda enn sendinefndum sínum í gömlu höfuðborg Ísrael, Tel Aviv.

Borgin klofin í tvennt þegar tillaga Thor Thors náði ekki stuðningi deiluaðila

Jerúsalem, sem Palestínska heimastjórnin hefur einnig lýst sem sinni höfuðborg, var klofin í tvennt í kjölfar vopnahlés sem náðist eftir stríðið í landinu árið 1948. Það braust út eftir að gyðingar lýstu yfir sjálfstæði á þeim svæðum sem þeir voru ráðandi á eftir að arabar höfnuðu samkomulagi um skiptingu þess milli þjóðanna tveggja sem þar bjuggu og arabísku ríkin í kring réðust á hið nýstofnaða ríki.

Þau svæði sem áttu að verða að arabísku ríki á svæðinu voru hins vegar að mestu tekin yfir af annars vegar Jórdaníu (Vesturbakkinn eins og hann er jafnan kallaður af aröbum en Júdea og Samaría eins og gyðingar kalla svæðið umdeilda) og hins vegar Egyptalandi, það er Gaza ströndin.

Þess má geta að skiptingin á landsvæðinu milli þjóðanna tveggja var, líkt og mörg dæmi eru um síðar í sögunni, að tillögu nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem að þessu sinni var undir forystu íslenska sendiherrans hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors. Samkvæmt tillögunni átti Jerúsalem að vera hlutlaust svæði undir stjórn beggja aðila.

Flestar sendinefndir til heimastjórnar Palestínumanna nálægt Jerúsalem

Ísrael, eins og þjóðríki gyðinga var kallað, tók síðan yfir austurhluta borgarinnar, í kjölfar Sex daga stríðsins árið 1967. Þar með talið náði Ísrael yfirráðum yfir þeirra helgustu véum, Grátmúrnum sem eru leifarnar af musteri Salómons og öllum gyðingum var bannað að heimsækja meðan svæðið var undir stjórn Jórdaníu. Þess má geta að trúarsamtök múslima fengu að ráða áfram yfir musterishæðinni, þar handan við, þar sem bæði Klettahvelfingin (Dome of the Rock) og hin sögufræga Al Aqsa moska eru staðsett.

Það stríð braust út eftir að nágrannaþjóðir Ísraels ætluðu að ráðast á landið enn eitt sinn en Ísrael náði að verða fyrri til og granda flugflota landanna að mestu á jörðu niðri. Ný áras arabaþjóðanna var svo gerð aftur á helgustu hátíð gyðinga árið 1973, svo það hefur verið kallað Yom Kippur stríðið, en eftir að Ísraelsmenn náðu sigri í því hefur Ísrael náð friðarsamkomulagi við bæði Jórdaníu og Egyptaland.

Síðan þá hafa átök gyðinga og araba í heimshlutanum verið takmarkaðri að umfangi, en jafnframt viðvarandi, þrátt fyrir að í Oslóarsamkomulaginu frá árinu 1993 var samtökum Yesser Arafat, PLO, heimilað að taka öll völd á ákveðnum svæðum þar sem arabar búa, og mynda heimastjórn.

Staða Jerúsalem, sem og fleiri stór mál sem enn standa út af milli þjóðanna tveggja sem búa á svæðinu, var ekki frágengið í Oslóarsamkomulaginu. Heimastjórn Palestínumanna gerir enn tilkall til austurhluta hennar sem höfuðborgar sinnar, og þess vegna hafa mörg ríki ekki fært sendiráð sín til borgarinnar, þó Ísrael hafi fært flestar aðrar ríkisstofnanir sínar aðrar en varnarmálaráðuneytið, til hennar.

Heimastjórn Palestínumanna er hins vegar staðsett í borginni Ramallah, sem er 10 kílómetrum norður af Jerúsalem, en þar eru jafnframt flestar af þeim 25 sendiskrifstofum erlendra ríkja til heimastjórnarinnar staðsettar.