*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 9. ágúst 2013 08:18

Færeyjar stefna að því að komast á innri markað ESB

Stjórnvöld í Færeyjum stefna að því að verða hluti af innri markaði ESB.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Stjórnvöld í Færeyjum stefna að því að verða hluti af innri markaði ESB. Markmiðið er að geta notið þeirra möguleika sem sterkt markaðssvæði, eins og ESB, býður upp á. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Færeyjar eru í ríkjasambandi við Danmörku, sem er aðildarríki ESB, en standa utan sambandsins. Samskipti milli Færeyja og ESB hafa verið stirð að undanförnu, sérstaklega eftir að aðildarríkin samþykktu á dögunum að beita refsiaðgerðum gegn Færeyingum vegna deilna um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

"Þegar við höfum leyst síldarmálið förum við beint inn í viðræður við ESB um að ná fram nýjum samningi," segir Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, í samtali við Politiken. Holm Johannesen bætir því við að hann hafi rætt málið við Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, sem er að hans sögn "jákvæð og fylgjandi þessum hugmyndum". Ráðuneyti Holm Johannesens mun sjá um viðræðurnar ásamt danska utanríkisráðuneytinu en tilbúinn samning þarf ekki að bera undir færeysku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stikkorð: ESB Færeyjar Færeyjar Færeyjar