*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Erlent 8. október 2021 18:02

Færir höfuðstöðvar Tesla til Texas

Elon Musk tjáði hluthöfum Tesla að fyrirtækið hygðist flytja höfuðstöðvar sínar frá Kísildalnum til Austin borgar í Texas.

Ritstjórn
Elon Musk
epa

Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst færa höfuðstöðvar sínar frá Kísildalnum til Austin borgar í Texas fylki. Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, er þar með að standa við hótun sína frá því í byrjun Covid þegar hann lýsti útgöngubanni í Kaliforníufylki í byrjun síðasta árs sem fasísku og ólýðræðislegu.

Musk lýsti yfir áformum fyrirtækisins að færa höfuðstöðvar sínar á aðalfundi Tesla sem haldinn var í Austin í gær. Hann minntist ekkert á pólitík og tók jafnvel fram að fyrirhugað væri að stækka starfsemi Tesla í Kaliforníu en ekki í jafnmiklum mæli og starfsemin í Texas.

„Þetta snýst ekki um að Tesla yfirgefi Kaliforníu,“ er haft eftir Musk í frétt Financial Times. Hann segir að stefnt sé að því að auka framleiðslugetu Fremont verksmiðju Tesla í Kaliforníu um 50%. Musk sagði hins vegar að framfærslukostnaður í Kaliforníu sé hár og að möguleikar fyrirtækisins að stækka núverandi höfuðstöðvarnar í Palo Alto væru takmarkaðir.

Hann heldur því fram það sé viðráðanlegra að hafa höfuðstöðvarnar í Austin, þar sem framleiðsla á pallbílnum Cybertruck fer fram. Þá sé auðveldara fyrir samstarfsaðila og viðskiptavini að heimsækja höfuðstöðvarnar. „Það tekur svona fimm mínútur að fara frá flugvellinum og korter frá miðbænum,“ segir Musk.

Þegar hann hótaði að flytja höfuðstöðvarnar „samstundis“ í maí í fyrra þá höfðu stjórnvöld í Kaliforníufylki skipað fyrirtækinu að loka Fremont verksmiðjunni vegna sóttvarnarráðstafana. Musk gekk þvert gegn skipuninni, höfðaði mál gegn Alameda-sýslunni í Kaliforníu, hóf framleiðslu á ný án heimildar og tísti: „kórónuveirufaraldurinn er heimskulegur“.

Stikkorð: Tesla Austin Texas Elon Musk