Útgefnum bókatitlum fækkaði nokkuð á árabilinu 2008 til 2010. Árið 2008 voru gefnar út 5,4 bækur á hverja 1.000 íbúa. Þær voru komnar niður í 4,7 á hverja 1.000 íbúa árið 2010, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar .

Sjötíu prósent þeirra rita sem koma út ár hvert eru eftir íslenska höfunda. Hlutur þýðinga hefur þó aukist talsvert hin seinni ár, en hlutfall þýðinga árið 2010 var 27 af hundraði. Þýðingar úr ensku eru langsamlega flestar. Ríflega sex af hverjum tíu þýddum bókum sem út komu árið 2010 voru þýðingar úr ensku.

Árið 2010 skiptist bókaútgáfan þannig að af hverjum 100 útgefnum titlum voru rit almenns efnis 70, fyrir börn og unglinga 21, og níu kennslu- og námsbækur. Hlutur bóka fyrir börn og ungmenni hefur aukist nær samfellt frá 1999.