Stuðningur demókrata við Hillary Clinton í baráttunni um að fá útnefningu flokksins til forsetaframboðs hefur dregist saman að undanförnu. Minna en helmingur demókrata segist nú styðja Clinton til verksins og er það í fyrsta sinn sem fylgið fer niður fyrir 50% frá því hún hóf kosningabaráttuna. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar CNN .

Stuðningur við Clinton mælist nú 47% en næstur á eftir henni kemur Bernie Sanders með 29% fylgi. Þá hefur Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, stuðning 14% flokksmanna, þrátt fyrir að hann hafi ekki tilkynnt um framboð.

Í könnuninni var hins vegar einnig mældur stuðningur við Clinton gagnvart stuðningi við frambjóðendur Repúblikanaflokksins. Samkvæmt niðurstöðunum myndi hún sigra þá alla, Donald Trump þar á meðal, í almennum kosningum með meiri mun en þegar Barack Obama, núverandi forseti, sigraði Mitt Romney árið 2012.