Farþegum með flugvélum í einkaeign, sem lentu á Reykjavíkurflugvelli fækkaði nokkuð á síðasta ári miðað við fyrra ár. Komu alls 1.915 farþegar í einkaflugvélum, og hafa þeir ekki verið færri síðan árið 2010 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Um er að ræða tölur yfir allt flug erlendis frá sem ekki telst reglubundið áætlunarflug eða leiguflug sem Isavia tók saman. Tölurnar eru þó ekki sundurliðaðar eftir einkaþotum, einkavélum í eigu Íslendinga eða ferjuflugvélum á leið yfir hafið.

Ef horft er til tímans fyrir fjármálahrunið þegar umferð einkaþotna til landsins vakti mikla athygli sést að árið 2007 fóru 5.316 farþegar um Reykjavíkurflugvöll samkvæmt áðurnefndri flokkun. Fækkaði þeim í kjölfarið og náði fjöldinn botninum árið 2010 þegar 1.383 fóru um völlinn, en árið 2011 fór fjöldinn upp í 1932. Árið 2012 til 2015 voru um 2.500 farþegar en árið 2016 fækkaði þeim aftur niður í 2.301 og eins og áður segir hélt þeim áfram að fækka á síðasta ári.

Sömu sögu er að segja ef horft er til talna yfir hreyfingar, það er fjölda flugtaka og lendinga. Voru þær 3.046 árið 2007, en árið 2016 voru þær 1.846 og loks 1.552 í fyrra.