„Við erum í þeirri stöðu hérna í Hafnarfirði að höfnin er nánast inni í miðri byggð. Það þrengir að hafnarsvæðinu og við verjum það eins og kostur er og aðlögum starfsemina að umhverfinu. Byggð, samfélag, mannlíf og miðbær þurfa að geta átt samleið. Hafnarsvæðið er tvískipt; annars vegar er smábáta- og skemmtibátahöfn sem liggur næst bænum en stóru bakkarnir, Suðurbakki og Hvaleyrarbakki eru stórskipahöfnin hvort heldur er fyrir togara eða fragtskip. Þetta er lokað svæði enda undir hafnarvernd samkvæmt alþjóðlegum reglum,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar.

Talsverð uppbygging hefur verið á Suðurbakka þar sem aðstaða er fyrir farþegaskip. Þar bættist við nýr bakki sem kallast Háibakki og þeim framkvæmdum lauk síðasta vetur. Við þennan bakka stendur hús Hafrannsóknastofnunar sem er orðið eitt kennileita Hafnarfjarðar og við bakkann leggjast skip stofnunarinnar; þ.e. Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Við bakkann er útivistarsvæði á trébryggju og umhverfið hið snyrtilegasta.

Útflutningur á brotajárni stóraukist

Á stórskipahöfninni fara fram landanir á ýmissi lausavöru og þar landa einnig innlend og erlend fiskiskip. Dýpstu kantarnir eru með tíu metra dýpi næst flotkvínni og þar leggja stærstu flutningsskipin sem eru með mesta djúpristu. Olíuflutningar hafa færst að mestu leyti til Helguvíkur en Atlantsolía er með birgðastöð á svæðinu og fær reglulega sendingar. Malbikunarstöðin Colas er með bækistöðvar á hafnarsvæðinu og í Hellnahrauni og Hafnarfjarðarhöfn er eina móttökustöðin fyrir asfalt á öllu suðvesturhorninu. Þessir flutningar hafa aukist mikið undanfarið en einnig flutningar á jarðefnum fyrir malbikunar- og steypustöðvar á svæðinu.

Þá hefur útflutningur á brotajárni frá Hafnarfjarðarhöfn aukist verulega í takt í verð hækkandi verð á stáli. Fyrirtækið Fura er stórtækt á þessu sviði og fleiri fyrirtæki hafa bæst í hópinn. Tvö skip eru í föstum siglingum til og frá Straumsvík. Þau annast útflutning á áli og innflutning á aðföngum til álversins og samhliða vöruinnflutningi í gámum frá Rotterdam. Auk þess landar eitt skip að jafnaði á mánuði súráli til álversins. Að jafnaði eru um 70 skipakomur á ári í Straumsvík.

400 stór skip að jafnaði á ári

„Sérstaða Hafnarfjarðarhafnar er sú hve margþætt og blönduð starfsemi og þjónusta fer þar fram. Þótt togarar séu ekki gerðir út héðan í jafnmiklum mæli og áður fyrr er Hafnarfjarðarhöfn þjónustuhöfn fyrir grænlenska og rússneska togara sem eru á veiðum út af Reykjaneshrygg og á milli Grænlands og Íslands. Hingað kemur því fjöldi erlendra skipa sem landa hér og sækja ýmsa þjónustu sem tengjast flotkvínni og öðrum þjónustuaðilum. Einnig er töluvert um landanir íslenskra ísfiskskipa meðan á vertíð stendur sérstaklega. Þegar allt er talið saman eru komur stærri skipa hátt í 400 talsins að jafnaði á ári,“ segir Lúðvík.

Þróunin undanfarin ár hefur verið á þá leið að færri en stærri skip landa í Hafnarfjarðarhöfn. Lúðvík segir að það kalli á gott uppland, hraðvirka þjónustu og meira dýpi fyrir djúpristari skip. Þessu hafi verið mætt að hluta til meðal annars með nýjum Háabakka og uppfyllingum. Skömmu fyrir aldamót var byrjað reisa land úr sjó við Hvaleyrarbakka og alls urðu þar til um 23 hektarar lands. Öllum lóðum hefur verið úthlutað og töluverð á sér stað þar núna. Þarna eru fyrirtæki eins og bátasmiðjan Trefjar, Atlantsolía, Eimskip, Saltkaup, Vélsmiðja Orms og Víglundar, Ísfell og Víkingbátar eru að fara að byggja upp aðstöðu og flytja starfsemi sína þangað frá Esjumelum.

Ný smábátahöfn og íbúasvæði

Undirbúningsvinna er komin langt á veg fyrir eina mestu breytingu sem innra  hafnarsvæðið í Hafnarfirði hefur gengið í gegnum. Meðal tillagna er uppbygging nýrrar smábátahafnar undir Vesturhamri norðan Flensborgarhafnar, endurbygging á svæði ofan núverandi smábátahafnar út undir Fjörukrá  og nýtt íbúðasvæði á milli Óseyrarbrautar og Hvaleyrarbrautar ofan við Suðurhöfnina.

Rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í febrúar á síðasta ári. Rammaskipulagið er stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð hafnarsvæðisins sem verður nánar útfærð í deiliskipulagi.

Tillögurnar sem unnið er eftir hugmyndum sem komu frá arkitektastofunum Mareld Landskapsarkitekter í Gautaborg og Jvantspijker í Rotterdam sem báru sigur  úr bítum í samkeppni sem Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn efndu til.

Íbúðabyggð ofan Óseyrar

„Við erum að móta og þróa svæðið sem liggur næst bænum, það er að segja smábátasvæðið og jaðarsvæði í kringum höfnina. Það var efnt til samkeppni um rammaskipulag fyrir svæðið sem liggur næst Flensborgarhöfn, úti í Slippinn og alveg til móts við Fjörukrá. Út úr þessu kom tillaga að svæðinu sem við erum endanlega að ganga frá inn í aðalskipulag sem er nú að fara í kynningu og vinna við deiliskipulag á svæðinu fer að hefjast,“ segir Lúðvík.

  • Ný Hamarshöfn, Flensborgarhöfn og Fornubúðir. Mynd//Mareld Landskapsarkitekter.

Í tillögunni felst að gerð verði ný smábátahöfn, gönguleið á trébryggju liggi meðfram sjávarkantinum frá Fjörukránni óslitið að Fornubúðum þar sem hús Hafrannsóknarstofnunar stendur, liðlega 1 km leið. lengd.  Þá er gert ráð fyrir þjónustubyggð á Fornubúðarsvæðinu þar sem Fiskmarkaðshúsið stóð áður en Tækniskólinn hefur óskað eftir viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um að byggja sína framtíðaraðstöðu á þessu svæði.  Hann er nú með starfsaðstöðu á sex stöðum í Reykjavík og Hafnarfirði.

Þá er gert ráð fyrir þéttri íbúðabyggð ofan við Óseyrarbraut þar sem nú er gamalt iðnaðar- og fiskvinnslusvæði. Þá er gert ráð fyrir blandaðri byggð þjónustustaða, matsölustaða, menningarhúss og íbúða á efri hæðum fyrir ofan Flensborgarhöfnina. Borgarlínan mun liggja í gegnum þetta svæði og hringtorg sem nú er við Strandgötu/Ásbraut verður aflagt og sett upp T gatnamót og svæði til uppbyggingar stækkar því umtalsvert. Siglingaklúbburinn Þytur fær nýja lóð á uppfyllingu austan við gamla slippinn og ný smábátahöfn, svonefnd Hamarshöfn, verður undir Vesturhamri við fjarðarbotninn í nálægð við miðbæinn.

Framkvæmdir hefjist á næsta ári

„Flensborgarhöfnin er fullnýtt. Þar er legupláss fyrir um 100 smábáta og skútur. Bátaeign almennings hefur aukist mikið og þar með eftirspurn eftir viðlegu. Vonast er til að framkvæmdir við uppfyllingar og mótun garða geti hafist fyrir lok þessa árs. Við vonumst til að 60-80 ný legupláss bætist við með nýju höfninni. Markmiðið er að tengja betur saman miðbæinn og opna hafnarsvæðið.  Þetta er líka hugsað sem útiveruvistarsvæði sem stækkar miðbæinn eins og við þekkjum frá gömlu höfninni í Reykjavík.“

Lóðarhafar, þar sem hús Hafrannsóknastofnunar stendur, hafa heimild til að stækka húsið í sömu mynd upp með Suðurbakka og þar skapast tækifæri fyrir margþætta starfsemi. Við Suðurbakka leggja farþegaskip að  á lokuðu svæði og áætlað er að 30 farþegaskip komi til Hafnarfjarðar á þessu ári.

„Vonir standa til þess að framkvæmdir við íbúðasvæði og uppfyllingar fyrir nýja smábátahöfn geti hafist á útmánuðum næsta árs. Ljóst er að þessi uppbyggingarfasi stendur yfir næstu þrjú til fimm ár. Það verður töluvert  til af nýjum lóðum við þessa endurskipulagningu og þær verða seldar til þess að mæta framkvæmdakostnaði á þessum nýju þjónustu- og hafnarsvæðum.“

Stórskipaflutningar út fyrir byggð

Lúðvík segir að þróunin verði á þann veg að stórskipa- og þungaflutningahöfnin muni færast út fyrir byggðina eins og þekkist annars staðar frá. Fyrir liggja hugmyndir um staðsetningu á slíkri stórskipahöfn í Óttarsstaðarlandi milli Lónakots og Straumsvíkur. Þar verður hægt að gera höfn með allt að 20 metra dýpi og með miklu landrými fyrir alla starfsemi. Þarna yrðu góðar tengingar við þjóðvegakerfið og alþjóðaflugvöllinn á Miðnesheiði. Verkefnið er hugsað sem samstarfsverkefni við önnur sveitarfélög á suðvesturhorninu og ríkisvaldið. Byggja yrði sjóvarnagarða til að verja höfnina í Óttarsstaðarlandi fyrir norðan- og vestanáttum og ljóst að um nokkuð dýra framkvæmd er að ræða en þarna eru sannarlega góðar aðstæður fyrir framtíðar stórskipahöfn utan byggðar fyrir allt Faxaflóasvæðið.