Á fyrstu sex mánuðum þessa árs fóru Íslendingar í 307.113 ferðir með flugi af landi brott, sem er fækkun um 4,9% frá sama tíma árið 2018, þegar brottfarirnar námu 322.873 að því er Túristi greinir frá.

Þannig telur vefmiðillinn ólíklegt að í ár verði met júnímánaðar frá í fyrra slegið, en þá fóru 71.208 íslenskir ferðalangar af landi brott, en næst stærsti mánuðurinn var júnímánuður 2016 þegar 67.075 ferðalangar með íslenskan ríkisborgararétt fóru í flug frá Keflavíkurflugvelli.

Þriðji stærsti mánuðurinn var svo júlímánuður í fyrra, með 66.239 brottfarir, en júní í ár er loks fjórði stærsti ferðamánuður Íslendinga frá því mælingar hófust, með 64.790 brottfarir.