Á hverju ári síðan 2012 hefur þeim fjölgað sem ferðast til útlanda í sumarfríinu þar til núna í sumar. Samkvæmt nýrri könnun Gallup á ferðalögum Íslendinga fóru 57% fullorðinna Íslendinga út fyrir landsteinana í sumar en síðustu tvö árin á undan var hlutfallið yfir 60%.

Nærtæk skýring á þessari fækkun er samkvæmt frétt á vef Gallup sú að óvenju gott veður var á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið sumar.

Konur fóru frekar til útlanda í sumar en karlar, og yngra fólk frekar en eldra. Íbúar höfuðborgarsvæðisins fóru frekar til útlanda en íbúar landsbyggðarinnar en þó er munurinn talsvert minni en fyrri ár, sem styður það að veðrið hafi haft áhrif. Fólk með meiri menntun og fólk með hærri fjölskyldutekjur er líklegra til að hafa farið út í sumar en það sem hefur minni menntun og lægri tekjur.

53% karla fóru utan í sumar miðað við 60% kvenna.

59% íbúa á höfuðborgarsvæðinu fóru til útlanda samanborið við 52% íbúa landsbyggðarinnar.

42% þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi fóru til útlanda miðað við 66% háskólamenntaðra .

72% þeirra sem hafa meira en 1.250 þúsund krónur í mánaðartekjur fór erlendis í sumar samanborið við 35% þeirra sem hafa læri tekjur en 400 þúsund krónur.

Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu hver samtals 15 nætur að meðaltali á ferðalögum sínum og þeir sem ferðuðust innanlands gistu hver samtals 10 nætur að meðaltali.