Töluvert hefur borið á fréttum um samdrátt í fjölgun ferðamanna nýverið; Isavia gerði í nóvember ráð fyrir 11% fjölgun í ár, samanborið við 24% fjölgun árið áður, og nú í sumarbyrjun var sú spá uppfærð í aðeins 2,6% fjölgun. Þótt flestir ferðamenn notist við vegsamgöngur hefur hlutdeild þeirra í innanlandsflugi aukist umtalsvert samhliða fjölgun þeirra. Hjá Air Iceland Connect hefur hlutfallið fjórfaldast og er í dag um 20%.

Í fyrra var 7% aukning farþega í innanlandsflugi, samanborið við árið áður. Á fyrri helmingi þessa árs dróst fjöldinn hins vegar saman um rúm 2%. Fyrir þessu segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, tvær meginástæður: annarsvegar sé samsetning erlendra ferðamanna að breytast. „Í júní varð 24% fækkun Þjóðverja sem erlendra ferðamanna á Íslandi, og 10% fækkun Frakka og Hollendinga. Þetta eru markaðir sem hafa hefðbundið verið að fara víða um land, farið mikið út á land, og dvalið hérna lengur en farþegar frá Norður-Ameríku, en þeim hefur aftur á móti verið að fjölga töluvert.“ Hins vegar sé félagið farið að fljúga milli Keflavíkur og Akureyrar, sem ekki sé talið með þar sem það fer frá Keflavík, en taki eðli máls samkvæmt umferð frá Reykjavíkurflugvelli.

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, segir samdráttinn ekki hafa komið mikið við félagið. „Við höldum vel í horfinu, erlendum farþegum hefur verið að fjölga, og ég get ekki séð að Íslendingum sé neitt að fækka.“ Það sem hafi komið einna verst niður á þeim sé einfaldlega veðrið. „Áætlunarflugið til Vestmannaeyja hefur gengið býsna brösuglega, því það hefur legið yfir þoka og verið ófært til Eyja bara marga marga daga í einu.“

Hörður segir hlutdeild erlendra ferðamanna hjá Erni vera á bilinu 10-15%, en það sé þó mjög árstíðabundið. „Yfir sumarið þá eru Íslendingarnir tiltölulega lítið að fljúga, þeir eru meira á vegunum. Þá hafa útlendingarnir verið að koma inn. En á veturna þegar veður er hálf leiðinlegt, vegir teppast og það er hálka og ófærð á vegum, þá fljúga Íslendingarnir meira.“

Jafn margir flugmenn í 37 sæta vél og 200 sæta

Eins og fram hefur komið hefur hörð samkeppni í millilandaflugi ýtt fargjöldum mikið niður, og þau hafa haldist þar þrátt fyrir hækkun eldsneytisverðs nýverið. Nú er því svo komið að í mörgum tilfellum er flug til útlanda ódýrara en innanlandsflug. Árni bendir á að samsetning kostnaðar sé allt önnur í innanlandsflugi. „Þetta eru 150-180 og yfir 200 sæta vélar, á meðan við erum að vinna á vélum sem eru 37 sæta og upp í 76 sæti. Það eru jafn margir flugmenn í báðum vélum, og við erum með sömu reglugerðir og sömu kröfur í flugrekstrinum eins og í millilandafluginu. Við höfum færri farþega til að bera hverja ferð heldur en millilandaflugið. Þar liggur munurinn á verðinu.“ Hörður tekur í sama streng. „Það er nánast sami launakostnaður og í millilandaflugi. Við erum með flugmenn sem eru á sömu samningum og hjá Icelandair, og við erum bara með 19 sæti fyrir aftan okkur. Miðað við þennan mikla launakostnað, sem hefur verið að hækka gífurlega undanfarið er kostnaðarskiptingin þannig að launin eru komin upp fyrir allt sem venjulegt félag ræður við. Ákveðna mánuði fór launakostnaðurinn upp í 60% af brúttótekjum félagsins, meðan Icelandair kvartar yfir 30%.“

Hann segir stærðarhagkvæmnina ekki einungis eiga við um farþegafjölda í hverju flugi, heldur einnig í víðara samhengi. „Það sem gerir áætlanaflugið mögulegt er að við erum að fljúga á fimm staði á landinu, og það er hægt að nýta vélakost, mannskap og fastan kostnað betur. Það er engin leið innanlands á Íslandi sem gæti borgað sig ein og sér. Ef eitthvert félag vildi taka eingöngu flug til Vestmannaeyja þá yrði ríkið að borga sennilega 200 milljónir með, að minnsta kosti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .