Árið 2011 fengu 370 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt en voru 450 árið áður. Ekki hafa færri einstaklingar fengið íslenskan ríkisborgararétt á ári síðan árið 2002. Frá árinu 1992 hafa konur verið í meirihluta nýrra íslenskra ríkisborgara. Í fyrra voru þær 201 en 169 karlar.

Hagstofan birti í dag Hagtíðindi um mannfjöldaþróun á Íslandi. Flestir nýrra ríkisborgara árið 2011 voru frá Evrópu, þar af 35 frá Póllandi og 34 frá Serbíu. Næstflestir voru frá Asíu, þar af 35 frá Filippseyjum. Í Hagtíðindum segir að skiptingin sé svipuð og undanfarin ár.