Ný könnun frá MMR rannsakaði ferðavenjur íslendinga í sumarfríinu. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 26. júní til 3. júlí 2018. Heildarfjöldi svarenda var 946 einstaklingar allir 18 ára og eldri.

Rúm 42% kváðust ætla að ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríi sínu. Þetta er 3 prósentustiga aukning frá síðustu könnun sem framkvæmd var á sama tíma í fyrra.

Þeim fækkaði um 3% milli ára sem kváðust eingöngu ætla að ferðast innanlands en hlutfall þeirra sem ætluðu eingöngu að ferðast utanlands hélst í stað.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins (17%) voru líklegri en íbúar landsbyggðarinnar (10%) til að ætla eingöngu að ferðast utanlands í sumarfríinu en íbúar landsbyggðarinnar (39%) voru líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (31%) til að ferðast eingöngu innanlands.

Stuðningsfólk Framsóknarflokksins var líklegra en aðrir hópar til að ætla eingöngu að ferðast innanlands í sumarfríinu eða 48%. Þá reyndist stuðningsfólks Flokks fólksins (20%) líklegra en aðrir hópar til að ætla eingöngu að ferðast utanlands en stuðningsfólk Miðflokksins (60%) líklegra en aðrir til að ætla bæði að ferðast innan- og utanlands.