Flugfélagið easyJet segir að flugbókunum hafa fækkað í kjölfar ferðatakmarkana vegna Ómíkron-afbrigðisins. Flugfélagið gaf út í dag að þróunin muni halda áfram út árið en að áhrifin af völdum faraldursins á fjölda bókana séu ekki eins miklar og í byrjun faraldursins.

EasyJet hefur tapað meira en milljarði punda tvö ár í röð og gengi hlutabréfa félagsins hefur ekki verið lægra síðan í fyrra.

Bretar hafa nýlega tekið upp hertar ferðatakmarkanir og þurfa allir komufarþegar til Bretlands að taka PCR-próf innan tveggja daga frá komu til landsins. Auk þess þurfa komufarþegar að vera í sóttkví þar til þeir fá neikvæða niðurstöðu. Auk þess hefur Bretland, eins og fjölmörg önnur ríki, takmarkað ferðir frá Suður-Afríku.

Gerald Khoo, greinandi hjá Liberum, segir efnahagsreikning easyJet vera nægilega sterkan til að takast á við áhrifin af völdum nýja afbrigðisins en að það sé of snemmt að segja til um áhrif Ómíkron á ferðatakmarkanir.