Páskarnir eru seint á ferðinni í ár og fyrir vikið fækkar lögboðnum frídögum á þessu ári um einn. Sumardaginn fyrsta ber nefnilega upp á skírdag í ár. Þess má geta að frídag verkalýðsins, 1. maí, ber upp á sunnudag í ár og því má í raun segja að í ár sé tveimur frídögum færra en venjulega. Þar sem 1. maí var laugardagur í fyrra fækkar frídögunum þó aðeins um einn á milli ára.

Ekki er þó víst að allir gráti þetta þar sem segja má að vinnuveitendur fái í raun einn aukadag á kostnað starfsmanna sinna. Sömuleiðis má ætla að hagkerfið í heild njóti góðs af þar sem virkir dagar verða fleiri á árinu en ella.

Í þessu samhengi má leika sér aðeins með tölur og ef gert er ráð fyrir að verg landsframleiðsla skiptist jafnt á alla virka daga ársins kemur í ljós að miðað við verga landsframleiðslu (VLF) ársins 2009 mun þessi aukadagur skila þjóðarbúinu ríflega 6 milljörðum króna. Árið 2009 bar 1. maí upp á föstudag þannig að sennilega gæti verðmætasköpunin orðið enn meiri. Hafa ber þó í huga að slíkir útreikningar eru mjög óáreiðanlegir enda margir óvissuþættir sem erfitt er að reikna með í fljótu bragði.

Eftirfarandi dagar eru lögboðnir frídagar á fyrri helmingi ársins:

Lögboðnir frídagar 2011
Nýársdagur                     laugardagur
Skírdagur                        21. apríl
Föstudagurinn langi        22. apríl
Annar í páskum               25. apríl
Sumardagurinn fyrsti       21. apríl
Frídagur verkalýðsins     1. maí sunnudagur
Uppstigningardagur         2. júní
Annar í hvítasunnu         13. júní
17. júní                            föstudagur