*

fimmtudagur, 27. febrúar 2020
Innlent 11. október 2019 07:30

Færri glíma við íþyngjandi greiðslubyrði

Tvöfalt fleiri einstæðir karlmenn glíma við íþyngjandi greiðslubyrði en einstæðar konur.

Ritstjórn
Hlutfall þeirra sem glíma við íþyngjandi greiðslubyrgði er langhæst meðal einstæðra karlmanna.
Haraldur Guðjónsson

Um sjö af hundraði landsmanna glíma þessi misserin við íþyngjandi greiðslubyrði en árið 2015 var hlutfallið 11%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um fasteignamarkaðinn, en þar er talað um að greiðslubyrgði sé íþyngjandi þegar 40% eða hærra hlutfall útborgaðra launa fer í að þjónusta skuldir. 

Ástæðan á bak við þessa fækkun rekur greiningardeildin til þess að dregið hafi úr skuldsetningu og vaxtaumhverfi hafi þróast í átt að lægri vöxtum. 

„Þá hafa laun hækkað umtalsvert líkt og greint hefur verið frá. Hefur því hlutfall ráðstöfunartekna landsmanna sem varið er í vaxtagjöld og afborganir skulda lækkað talsvert og samhliða því skapast svigrúm hjá fleiri aðilum til að verja auknum hluta ráðstöfunartekna til neyslu og/eða sparnaðar,“ segir í skýrslu Íslandsbanka. 

„Þegar greiðslubyrði skulda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er skoðuð eftir fjölskyldugerð lítur út fyrir að einstæðir karlmenn séu sá hópur sem í hvað flestum tilvikum býr við íþyngjandi greiðslubyrði. Hlutfall einstæðra karlmanna sem búa við íþyngjandi greiðslubyrði nemur 10,4% og er rúmlega tvöfalt hærra en hjá einstæðum konum og hjónum eða sambúðarfólki í sömu aðstæðum. Jafnframt er algengast að byrðin sé íþyngjandi á meðal fólks á aldrinum 35–64 ára. Þannig má leiða líkum að því að óheilbrigð skuldsetning sé hvað algengust hér á landi hjá einstæðum karlmönnum á áðurgreindu aldursbili. 

Gefur þetta tilefni til að skoða betur hvað veldur slíkum fjárhagslegum aðstöðumun á milli mismunandi fjölskylduforma.“