Meðalstór tveggja herbergja íbúð sem byggð var á síðustu árum er næstum því jafn stór og meðalstór þriggja herbergja íbúð sem byggð var árið 1980 að því er kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs. Það mætti því segja að eigandi nýrrar 80 fermetra íbúðar hafi að meðaltali glatað einu herbergi á tímanum. Meðalfjöldi fermetra í þriggja herbergja íbúðum sem eru í byggingu eða eru nýkomnar á markaðinn í dag er til samanburðar um og yfir 100 fermetrar.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs segir að ýmsar ástæð­ur kunni að reynast fyrir þessari þróun. „Það er stundum talað um byggingarreglugerðina í þessu samhengi. Hún setur ákveðnar kröfur en svo getur líka verið einfaldlega að fólk hafi meira á milli handanna nú heldur en áður. Fólk hefur almennt efni á stærri íbúð­ um og það kann að skýra þetta. Á móti kemur að það er stór hópur fólks sem hefur ekki efni á þessum stærri íbúðum og þarf minni og hagkvæmari íbúðir. Það þarf líka að huga að hagsmunum þessa fólks á fasteignamarkaði. Þess vegna er þetta dálítið áhyggjuefni.

Skipulagslöggjöfin og viðmið sem sett eru til dæmis í deiliskipulagi hafa áhrif á það hvernig uppbygging á sér stað. Það er ekki óalgengt að í deiliskipulagi sé til dæmis hámarksfjöldi íbúða og hámarksfjöldi fermetra og þá reyna byggingaraðilar að byggja í alla þá fermetra sem eru heimilaðir án tillits til þess hvort það skili sér endilega í minni íbúðum. Það er atriði sem er vert að hafa í huga og tilefni fyrir stjórnvöld að skoða.“

Á fundi íbúðalánasjóðs með fasteignasölum í gærmorgun komu þau sjónarmið fram í máli fundargesta að eftirspurn eftirstríðskynslóð­arinnar eftir því að minnka við sig og færa sig úr einbýli í fjölbýli með stærri stofum og herbergjum, væri mikil. Það gæti útskýrt umræddar breytingar að hluta.

Spurður hvort tölurnar renni stöðum undir tilgátuna segir Ólafur Heiðar: „Við sjáum þetta ekki beint úr tölunum en við sjáum það hins vegar að meðalstærð nýrra íbúða í fjölbýli hefur verið að hækka undanfarin 20 ár sem er í samræmi við þessa tilgátu.“

Hann segir jafnframt að tilefni sé fyrir stjórnvöld til þess að skoða hvernig hægt sé að ýta undir byggingu íbúða sem séu hagkvæmari og gefi t.d. ungu barnafólki tækifæri á að eignast þriggja herbergja íbúðir á færri fermetrum en nú er verið að byggja. Líkt og áður sagði er meðalstærð þriggja herbergja íbúða í byggingu nú um 100 fermetrar en hámarksstærðin til þess að þriggja herbergja íbúðir geti fengið stofnframlög úr ríkissjóði er 80 fermetrar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .