*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 15. júlí 2019 15:08

Færri hyggja á utanlandsferðir í sumar

Flestir stuðningsmenn Miðflokksins ætla ekkert að ferðast, en stuðningsfólk VG og Pírata ferðast mest.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Alls 40% landsmanna kváðust ætla að ferðast bæði innanlands og utan í sumarfríinu þetta árið, 38% kváðust eingöngu ætla að ferðast innanlands og 12% kváðust eingöngu ætla að ferðast utanlands að því er fram kemur í nýrri ferðavenjukönnun MMR.

Hlutfallsleg fækkun er meðal þeirra sem hyggja á ferðalög erlendis í sumar úr 57% í fyrra niur 52% í ár, sem er viðsnúningur frá fyrri árum, en hlutfallið hafði hækkað árlega frá mælingum ársins 2013. Þá fjölgar þeim sem hyggjast ferðast innanlands, um tvö prósentustig, eða í 78% og hefur hlutfallið ekki mælst hærra frá því í júní 2014.

Hlutfall þeirra sem kváðust ætla að ferðast bæði innanlands og utan í sumar var hæst á meðal svarenda á aldrinum 18-29 ára, eða 44%, og fór minnkandi með auknum aldri. Svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri til að segjast ætla að ferðast bæði innanlands og utan, eða 45%, heldur en þau af landsbyggðinni, þar sem hlutfallið var 30%.

Sjálfstæðis- og Viðreisnarfólk heldur sig innanlands

Stuðningsfólk Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast eingöngu ætla að ferðast innanlands í sumar eða 46% og 40%.

Stuðningsfólk Framsóknar, eða 21%, reyndist líklegast til að segjast eingöngu ætla að ferðast utanlands. Þá reyndist stuðningsfólk Vinstri-grænna, eða 47%, og Pírata, eða 47%, líklegast til að segjast bæði ætla að ferðast innanlands og utan í sumarfríinu en stuðningsfólk Miðflokksins reyndist líklegast allra til að segjast ekki ætla að ferðast neitt í sumar, eða 17%.

Könnunin var framkvæmd dagana 7. til 14. júní 2019 og var heildarfjöldi svarenda 988 einstaklingar, 18 ára og eldri.