Apple mun framleiða sex milljónir færri eintaka af iPhone 14 Pro á árinu en áður var stefnt að í kjölfar mótmæla vegna harðra sóttvarnaraðgerða í Kína, þar sem stór hluti af framleiðslu tæknirisans fer fram. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Verkafólk í Foxconn verksmiðjunni í Zhengzou í Kína mótmælir nú skertum lífsgæðum af völdum strangra sóttvarnaraðgerða. Verksmiðjan í Zhengzhou er stærsta iPhone verksmiðja í heimi.

Apple hafði nú þegar lækkað framleiðslumarkmiðið sitt um þrjár milljónir eintaka, úr 90 milljónum niður í 87 milljónir. Talið er að framleiðslugetan muni lækka enn frekar á komandi misserum ef óeirðirnar halda áfram í landinu.

Gengi bréfa Apple hefur lækkað um tæp 2 prósentustig það sem af er degi. Gengið stendur nú í 145 dölum á hlut og hefur lækkað um fimmtung frá áramótum.