Nokkuð hefur dregið úr ferðum Íslendinga til Berlínar í Þýskalandi á þessu ári samanborið við síðasta ár. Þannig bókuðu íslenskir ferðamenn fimmtungi færri gistinætur í Berlín fyrstu tíu mánuði ársins samanborið við sama tímabil á síðasta ári samkvæmt tölum frá ferðamálaráði borgarinnar. Túristi greinir frá þessu.

Frá janúarmánuði þar til í október á þessu ári voru gistinætur Íslendinga í Berlín 22.561 talsins, en á sama tímabili í fyrra voru þær 27.917. Hins vegar hefur hótelgestum í borginni almennt fjölgað um 5,9% og einnig eru utanferðir Íslendinga tíðari nú en í fyrra.

Á síðasta ári var í fyrsta sinn boðið upp á beint flug til Berlínar allt árið um kröng, og fjölgaði þá gistinóttum Íslendinga í borginni um 41% á milli ára. Wow air er eina flugfélagið sem sinnir flugi til borgarinnar yfir veturinn en á sumrin fljúga bæði Airberlin og German Wings þessa leið.