Sala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 0,3% minni í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári. Samtals seldust 724 þúsund lítrar af áfengi þessa vikuna en í fyrra seldust 727 þúsund lítrar, að því er fram kemur í frétt á vef Vínbúðarinnar.

Föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi er jafnan einn annasamasti dagur ársins og í ár var engin undantekning á því. Sala á föstudeginum var 7,5% meiri í ár en í fyrra en á móti dró úr sölu á fimmtudeginum. Rúmlega 266 þúsund lítrar seldust á föstudeginum.

Sala í Vínbúðinni í Vestmannaeyjum jókst um rúmlega 15% milli ára og munar þar mestu um söluna á föstudeginum, sem var um 73% meiri en í fyrra. Þá var salan í Vínbúðinni á Akureyri rúmlega 8% meiri í ár en í fyrra. Salan í Vínbúðum Reykjavíkur var 4,4% minni í ár en í sömu viku í fyrra.