Aukin notkun á aðgengilegum og notendavænum rafrænum greiðslumöguleikum hefur dregið enn frekar úr notkun reiðifjár í viðskiptum, samkvæmt nýrri skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands.

Þá sagðist einn af hverjum þremur svarenda í Gallup-könnun, sem framkvæmd var í vor, nota reiðufé og fækkaði þeim um 6,5% miðað við svipaða könnun árið 2020.

Af þeim tæplega 40% svarenda sem notuðu reiðufé sögðust flestir nýta það til gjafa og til að borga öðrum einstaklingi, en aðeins 7,5% svarenda notuðu reiðufé til að greiða fyrir vöru og þjónustu.

Á milli áranna 2018 og 2022 er fjölgun í öllum aldurshópum sem sögðust ekki nota reiðufé á sölustöðum, en þar af jókst hlutfallið mest hjá fólki undir fertugt. Í skýrslunni segir þó að notkun reiðufjár gegni áfram mikilvægu hlutverki þrátt fyrir litla almenna notkun. Reiðufé komi í veg fyrir fjármálaeinangrun þar sem ekki allir geti nýtt sér rafræna greiðslumiðla.