Fækkun hefur orðið undanfarið á umsóknum íslenskra nemenda um skólavist við þrjá stærstu háskóla landsins. Talsmenn skólanna virðast sammála um að bættur hagur og minnkandi atvinnuleysi hafi áhrif á aðsókn innlendra nemenda í skólann á sama tíma og þeir finna fyrir auknum áhuga erlendra nemenda.

Gerðu ráð fyrir fækkun í áætlunum sínum

Í viðtali við Ara Kristin Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, á dögunum kom fram að þrátt fyrir að skólinn stæði styrkum fótum þá fyndi starfsfólk skólans vel fyrir því að í uppsveiflu í samfélaginu dragi aðeins úr eftirspurn eftir námi. Það sem bæti það upp sé að umsóknum erlendra nemenda hafi fjölgað og því sé skólinn heilt yfir á pari hvað umsóknir varðar. Hann finni það hins vegar á íslensku umsóknunum að það sé greinilegt að vinnumarkaðurinn sé miklu sterkari í dag en hann var fyrir fjórum, fimm árum.

Talsmaður Háskólans í Reykjavík segir að vegna uppsveiflunnar í efnahagslífinu hafi áætlanir skólans gert ráð fyrir heldur færri nýnemum í haust en undanfarin ár og þær áætlanir hafa gengið eftir. Um 1.500 nýnemar hófu nám við háskólann þetta árið. Undanfarin ár hafi umsóknum um skólavist við háskólann hins vegar farið fjölgandi og fjöldi nemenda við háskólann að sama skapi vaxið. Vegna breytinga sem hafi verið gerðar á umsóknarferlinu segir hann tölur um fjölda umsókna ekki fyllilega samanburðarhæfar á milli ára.

Heildarfjöldi umsókna hafi þó verið svipaður og í fyrra en innlendum umsóknum hafi þó fækkað á meðan erlendum umsóknum hafi fjölgað. „Við sjáum það á stóru myndinni að þegar uppsveifla er í atvinnulífinu og eftirspurn eftir vinnuafli eykst, þá dregur úr eftirspurn eftir háskólanámi. Okkar sýn er þó sú að þarna sé um að ræða frestun á námi og nemendurnir skili sér í háskóla til lengri tíma,“ segir hann.

22% færri innlendar umsóknir til Háskólans á Bifröst

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, að tölur sýni vissulega að umsóknum hafi fækkað frá árinu 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.