Fjárhagsaðstoð til framfærslu var veitt til 3.269 einstaklinga og fjölskyldna samanborið við 3.350 árið 2013 og er það fækkun um 2,4%. Synjanir umsókna um fjárhagsaðstoð voru 584 á árinu. Þar af var 236 einstaklingum synjað með öllu um fjárhagsstuðning samanborið við 220 mál árið 2013 og er það fjölgun um 7%. Þetta kemur fram í ársskýrslu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Auk fjárhagsaðstoðar til framfærslu er heimilt að veita einstaklingum og fjölskyldum fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna, náms eða óvæntra áfalla skv. reglum um fjárhagsaðstoð. Alls var veitt fjárhagsaðstoð í borginni til 4.088 einstaklinga og fjölskyldna á árinu, samanborið við 4.218 árið 2013 sem er fækkun um 3,1% á milli 2013 og 2014.

Heildarrekstrargjöld velferðarsviðs Reykjavíkurborgar jukust þó milli ára úr 16,5 milljörðum árið 2013 í 18,7 milljarða árið 2014 og nema útgjöld velferðarsviðs 21,6% af heildarútgjöldum Reykjavíkurborgar, samanborið við 22,6% árið 2013.

Fleiri þáðu húsaleigubætur

Íbúum Reykjavíkur sem þáðu húsaleigubætur fjölgaði þó. Alls fengu 8.846 leigutakar í Reykjavík greiddar húsaleigubætur á árinu og er það fjölgun um 6,4% frá 2013.

Nýjum umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði fækkaði um 6,5% á milli ára og umsóknum á biðlista fækkaði um 2% frá lokum árs 2013 til loka árs 2014. Lausum íbúðum til úthlutunar fækkaði um 17% milli ára.