Kannanir bandaríska fyrirtækisins Training the Street benda til þess að sífellt færri MBA-nemar hafi áhuga á því að starfa hjá vogunarsjóðum. Í skoðanakönnunum koma vogunarsjóðirnir verr út nú en áður fyrr, þar sem þeir trónuðu hátt uppi á listum þeirra sem voru að leita sér að starfi að námi loknu.

Ástæðan gæti verið sú að vogunarsjóðum hefur farið talsvert hrakandi erlendis á síðustu árum, en þá hefur það einnig gerst að vogunarsjóðir hafa hert ráðningarskilyrði sín svo um munar og erfiðara er að fá vinnu hjá slíkum sjóði. Þeir ráða einfaldlega færra fólk.

Hvar sem þeir enda að lokum virðast útskriftarefnin bjartsýn um framtíð sína að náminu loknu. Um 85% þeirra hafa jákvætt viðhorf gagnvart framtíð sinni eftir útskrift - og þar sem flest þeirra höfðu þegar hlotið eitt tilboð um starf og að byrjunarlaunin voru sex stafa dollaratölur, þá er það ekki svo undarlegt að heyra.