Farþegum Icelandair til Íslands hélt áfram að fjölga í nóvember og voru þeir rúmlega 114 þúsund talsins, sem er 16% aukning á milli ára. Á sama tíma fækkaði tengifarþegum hjá félaginu í mánuðinum um 29% frá sama tíma fyrir ári, en fækkunin það sem af er ári nemur 9%.

Það er sagt vera í samræmi við áherslu Icelandair á ferðamannamarkaðinn til Íslands að undanförnu. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt um 1,7 milljón farþega til Íslands, sem er 25% aukning frá árinu 2018.

Sætanýting í millilandastarfsemi var 78.6% samanborið við 79.8% á sama tíma í fyrra. Heildarfarþegafjöldi Icelandair fyrstu 11 mánuði ársins var rúmlega 4,1 milljón og hefur farþegafjöldinn aukist um 7% á milli ára.

Komustundvísi hjá Icelandair var 90.0% í nóvember samanborið við 75.7% á sama tíma í fyrra og farþegum til Íslands heldur áfram að fjölga. Þetta segir félagið vera besta árangur þess í stundvísi í heilan áratug, en á þessum tíma, eða frá árinu 2009, hefur farþegafjöldi Icelandair tvöfaldast og fjöldi véla í flotanum rúmlega þrefaldast.

  • Seldir flugtímar í leiguflugi hefur fækkað um 7% milli ára í nóvember, en fækkunin nemur 12% það sem af er ári fyrir hvort ár.
  • Samdráttur í innanlandsflugi Air Iceland Connect, áður Flugfélags Íslands, nemur 6% í nóvember, samhliða 15% minna framboði, en fyrir fyrstu 11 mánuði ársins er samdrátturinn 12% í fjölda farþega, en í framboði 21%.
  • Jafnframt dróst nýting hótelrýma í eigu félagsins saman um 1 prósentustig í nóvember, samhliða 3 aukningu í sölu gistinátta, vegna þess að hótelrýmin jukust um 4%. Samsvarandi tölur fyrir það sem af er ári nemur 0,1 prósentustiga aukningu, en aukning í sölu og gistirýmum hefur haldist nokkurn veginn í hendur eða um 6%.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group segir félagið áfram munu leggja áherslu á markaðina til og frá Íslandi í vetur og á næsta ári. „Sveigjanleiki í leiðakerfi félagsins gerir okkur kleift að færa tíðni á milli áfangastaða til að mæta eftirspurn, auka hagkvæmni og halda áfram að styrkja starfsemi félagsins,“ segir Bogi Nils.

„Stundvísi er einn mikilvægasti þáttur í starfsemi flugfélaga og hefur víðtæk áhrif, ekki síst á upplifun og ánægju farþega. Áhrifin koma jafnframt víða fram í starfseminni, svo sem á ýmsa kostnaðarliði, vinnuálag og þar með starfsánægju. Það þarf margt að ganga upp til að árangur náist en við höfum bætt stundvísi félagsins umtalsvert á undanförnum mánuðum með samstilltu átaki starfsmanna, þrátt fyrir álag og breytingar á leiðakerfinu vegna kyrrsetningar MAX vélanna.“