Færslan sem Hersir Sigurgeirsson „lækaði“ og varð kveikjan að því að hann sagði sig frá rannsókn Ríkisendurskoðunar á bankasölu Bankasýslunnar var birt vel eftir að aðkoma hans hófst og lætur nokkuð stór orð falla um kynningu og framkvæmd sölunnar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er um að ræða færslu Marinós G. Njálssonar, fyrrum stjórnarmanns Hagsmuna Heimilanna og eins helsta talsmanns þeirra á sínum tíma, þar sem sett er út á „klúður Bankasýslunnar í útboðinu“ og meinta tilraun viðskiptamiðilsins Innherja til að „fegra“ það. Færslan er frá 6. maí síðastliðnum en Ríkisendurskoðun óskaði eftir aðkomu Hersis þann 11. apríl.

Hersir sagði í færslu nú fyrir stuttu að ábending um að hann hafi sett „læk“ á tiltekna Facebook-færslu – sem Ríkisendurskoðun barst frá Bankasýslunni í löngu máli og var undirrituð af forstjóranum – fæli í sér eftirlit sem hann kynni ekki við, og hann hefði því ákveðið að segja sig frá úttektinni.

Ekkert um að hafna góðum tilboðum og hverjir teldust hæfir

„Þarna er ekki eitt orð um afslátt eða að slíkur afsláttur sé forsenda útboðsins. Það er heldur ekki talað um að hafna góðum tilboðum og taka lakari fram yfir. Ekki er heldur talað um að bjóða „hobbífjárfestum“ að taka þátt. Og loks er ekki talað um að hleypa að tilboðum sem eru svo lág, að þau ættu einfaldlega heima á markaði.“

Þetta er meðal þess sem Marinó segir í færslunni um kynningu Bankasýslunnar á tilboðssölufyrirkomulagi sölunnar margumræddu fyrir þingnefndum í aðdraganda hennar.

Glæra sem Innherji birti úr téðri kynningu er gerð að sérstöku umtalsefni og segir Marinó hana staðfesta „að framkvæmdin var önnur en kynnt var. Auk þess segir glæran ekkert til um hvaða ferli söluaðilar áttu að nota við val á fagfjárfestum, hvaða fjárfestar töldust hæfir fjárfestar eða hve lág tilboð voru ásættanleg.“ […] „Ef eitthvað er, þá sannar glæran að aðferðin var illa kynnt, var illa skilgreind og bauð upp á það klúður sem varð.“

Á glærunni hafi auk þess ekkert komið fram um ferlið við val á fagfjárfestum, hverjir teldust hæfir fjárfestar „eða hve lág tilboð voru ásættanleg.“.