Þórdís Jóhannesdóttir, eigandi jarðarinnar Stardals, vill byggja veitingastað á toppi Skálafells. Hefur hún látið verkfræðistofuna Mannvit skoða möguleika á því að koma upp kláfi og byggja veitingastað á fjallinu að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Tilgangur með uppsetningu kláfs á Skálafelli er að gefa fólki tækifæri á að komast upp á tind fjallsins og njóta þess þar hversu víðsýnt er til allra átta,“ segir meðal annars í erindi Mannvits til Skipulagsstofnunar og Reykjavíkurborgar

„Þá mun kláfurinn einnig gegna hlutverki skíðalyftu á vetrum þegar nægur snjór er í fjallinu en þannig fengjust talsvert lengri skíðabrekkur en svæðið býður upp á í dag. Á toppi Skálafells er gert ráð fyrir móttöku ferðamanna auk veitingastaðar, samtengt
toppstöð kláfsins.“

Í umsögn Skipulagsstofnunar við erindi Mannvits til Reykjavíkurborgar kemur fram að umfangið sé það mikið að fara þurfi í mat á umhverfisáhrifum. Kláfurinn á að fara um tveggja kílómetra leið frá bílastæði við rætur fjallsins upp á topp. Þurfi til þess 12 möstur, auk endamastra.

Áhöld virðast þó vera á skipulagi skíðasvæðisins í Skálafelli, sem virðist vera skilgreint sem óbyggt svæði í Aðalskipulaginu. Einnig virðist sem veitingastaðurinn sjálfur verði staðsettur innan marka Kjósarhrepps en ekki Reykjavíkur.