Orðið „snjallnet“ er notað sem samheiti yfir allskonar hluti og er frekar illa útskýrt. Landsnet hefur hins vegar verið að vinna með snjallnet lengi,“ segir Guðjón Hugberg Björnsson, rafmagnsverkfræðingur í stýringu og gæslu hjá Landsneti, en hann hélt erindi um snjallnet Landsnets á degi verkfræðinnar í byrjun mánaðar. Snjallnet (e. SmartGrid) er samheiti yfir tækninýjungar á sviði framleiðslu, flutnings og dreifingar raforku sem nýta fjarskipta-, stýri- og upplýsingatækni til að tryggja sem öruggasta afhendingu rafmagns og hámarka jafnframt hagkvæmni.

„Þegar fólk á fertugsaldri var ungt varrafmagnsleysi öðru hverju. Ef þú bjóst úti á landi þá var þetta bara eitthvað sem gerðist. Í dag sættir sig enginn við straumleysi enda erum við mun háðari rafmagni en áður. Raforkuinnviðirnir eru að meðaltali þrjátíu ára “ segir Guðjón. „Snjallnetið byggir á að auka afhendingaröryggi og -getu kerfisins þannig að kúnninn finni sem minnst fyrir því. Það er útgangspunkturinn hjá okkur.“ Ráðstafa rafmagni betur Hann segir rekstur flutningskerfisins erfiðan því ekki sé auðvelt að byggja nýjar raflínur en samt er afhent töluvert meira rafmagn gegnum kerfið.

„Í gamla daga var minna um tölvur sem gátu aðstoðað við stýringu kerfisins. Við vorum ekki með háhraðainternet. Ég var til dæmis kominn með kosningarétt þegar háhraðainternet var kosningamál,“ segir Guðjón og hlær. „Snjallnet notar fjarskipti til að ráðstafa rafmagni betur, til dæmis til notanda sem sættir sig við minni áreiðanleika en aðrir.“ Þessir notendur eru til dæmis fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi, en Landsnet fékk í október í fyrra verðlaun fyrir framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins fyrir verkefnið, sem felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi kallað Snjallnet á Austurlandi. Þar var þróuð ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstraröryggi svæðanna. Þannig má tryggja snurðulausa afhendingu raforku til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. „Við jukum afhendingu á Austurlandi úr 30 megavöttum í 90 megavött. Hinn almenni notandi ætti að hafa rafmagn öllum stundum en þessir notendur fá stundum að víkja við erfiðar aðstæður svo sem truflanir.“

Erum sjálfum okkur verst

Rafmagn er eitthvað sem við tökum sem sjálfsögðu. „Við erum sjálfum okkur verst í því því við erum alltaf að auka afhendingaröryggið og alltaf minna um truflanir og útfall. Á sama tíma erum við því alltaf að fara nær brúninni í afhendingargetu og það verður mikill skellur fyrir alla þegar kerfið bara getur þetta ekki lengur. Við aukum afhendingaröryggi á gamla kerfinu en það er engin krafa um nýtt kerfi. Einn góðan veðurdag komumst við á þann stað að gamla kerfið getur ekki meira og við erum að nálgast hann.“ Hvað gerist þá? „Þá upplifum við minna afhendingaröryggi og minni orkuflutningsgetu. Við sjáum nú þegar að skerðingar til notenda eru að aukast og það er byrjað að segja nei við kúnna sem vilja koma til landsins – ekki bara stóra notendur heldur líka netþjónabú og rafmyntarnámur. Það er víða orðið uppselt í kerfinu. Landsneti er auðvitað skylt samkvæmt lögum að afhenda rafmagn til almennra notenda þannig að það verður að vera í forgangi.“

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .