Flestir myndu veigra sér við að stíga upp í flugvél, jafnvel þó stjórnvöld myndu tilkynna um að þau hafi náð niðurlögum á kórónuveirufaraldrinum. Þetta er niðurstaða könnunar IATA, Alþjóðasambands flugfélaga, í ellefu löndum.

Í könnuninni, sem framkvæmd var í byrjun apríl, var spurt um hvenær fólk telji líklegt að það muni ferðast með flugi eftir að tilkynnt er um að tekist hafi að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Aðeins 14% aðspurða töldu líklegt að þeir myndu ferðast strax sem er mun lægra hlutfall en í sömu könnun í febrúar. Þá sögðust 22% aðspurðar stefna á að fljúga strax og tekist hefði að ná tökum á útbreiðslu veirunnar.

Þá segjast 47% telja að þeir muni bíða í einn til tvo mánuði með að ferðast miðað við 45% í könnuninni í febrúar.

Þeim fjölgar sem segjast ætla að bíða enn lengur. Um 40% aðspurðra telja að þeir muni bíða hálft ár eða lengur.

28% segjast ætla að bíða í um hálft ár miðað við 23% í febrúar. Þá telja um 8% aðspurða að beðið verði í um ár með að fljúga miðað við 7% í síðustu könnun. Um 4% sjá ekki fyrir sér að ferðast með flugi um fyrirsjáanlega framtíð miðað við 3% í fyrri könnun.

Því til viðbótar bendir IATA á að heimskreppan sem nú ríður yfir hafi í för með sér að fjárhagur neytenda versni. Því séu líkur á að eftirspurn eftir flugferðum minnka, jafnvel þó áhyggjur af faraldrinum verði liðnar hjá.

Könnunin var framkvæmd í Ástralíu, Kanada, Chile, Frakkalandi, Þýskalandi, Indlandi, Japan, Singapúr, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Bretlandi og Bandaríkjunum.