Einungis 13,9% af nýjum íbúðalánum bankakerfisins á þessu ári eru óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans um bankakerfið sem uppfærðar voru á mánudaginn. Um 19,3% nýrra útlána eru verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, 20,5% óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og 46,2% nýrra útlána eru með föstum verðtryggðum vöxtum.

Samtals námu ný verðtryggð útlán til íbúðakaupa heimila um 30,6 milljörðum króna fram til maí á þessu ári en óverðtryggð lán um 16 milljörðum króna. Samtals er um að ræða 3.659 lán en þar af eru 1.439 með föstum verðtryggðum vöxtum eða um 39,3% af heildarfjölda nýrra lána til heimila til íbúðakaupa.