Um 21% þjóðarinnar vilja greiða áfallna vexti af Icesave III með lántökum og 8% með skattahækkunum samkvæmt nýrri könnun sem Miðlun hefur gert fyrir þjóðmálafélagið Andríki. Spurt var í könnuninni hvernig svarendur teldu best að ríkissjóður aflaði þeirra 26,1 milljarða króna sem þarf til þess að greiða áfallna vexti til Breta og Hollendinga.

55% aðspurðra sögðust ekki vita það eða vildu ekki svara en 20,9% sögðu með lántöku, 15,6% með niðurskurði og 8,5% með hækkunum skatta.

Könnunin var unnin dagana 17.-28. mars og svöruðu 855 einstaklingar spurningunum en könnunin fór fram á netinu.

Í fréttatilkynningu frá Andríki kemur fram að áfallinn vaxtakostnaður sé uþb jafnhár og stofnkostnaður Búðarhálsvirkjunar, sem er 26,5 milljarðar króna, og tvöfaldur rekstrarkostnaður Háskóla Íslands á árinu.