Í nýrri könnun Gallup þar sem fólk er spurt hvaða flokka það myndi vilja að mynduðu nýja ríkisstjórn, voru fæstir sem vildu Samfylkinguna í ríkisstjórn eða 20% aðspurðra. Flestir vildu hins vegar sjá annað hvort Vinstri græn eða Bjarta framtíð í nýrri ríkisstjórn, þó er gífurlega ólíkt hvaða flokka fólk vill að vinni saman. Spurt var hvaða flokka, tvo eða fleiri, fólk myndi vilja að mynduðu nýja ríkisstjórn. Um málið er fjallað ítralegar í frétt Ríkisútvarpsins .

Vinstri græn og Björt framtíð voru oftast nefnd, en 67% nefndu Vinstri græn og 66% Bjarta framtíð. Næst á eftir þessum flokkum koma Viðreisn sem að 59% vildu í stjórn og Sjálfstæðisflokkurinn sem að 57% vildu í stjórn. Hins vegar nefna einungis 34% Pírata, 24% Framsóknarflokkinn og 20% Samfylkinguna eins og áður hefur komið fram.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu frá 3. Nóvember, daginn eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hlaut stjórnarmyndunarumboðið, til 14. Nóvember, sem er dagurinn áður en stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar var slitið.