*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 30. júlí 2019 12:58

Fáfnir Viking seldur til Kanada

Systurskip Polarsyssel sem Fáfnir Offshore lét smíða hefur verið selt. Tapreksturinn var yfir milljarður króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Þjónustuskipið Fáfnir Viking, sem íslenska fyrirtækið Fáfnir Offshore lét smíða en fékk aldrei afhent, hefur verið selt til útgerðar í Kanada að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um samdi félagið við norsku skipasmíðastöðina Havyard í Fosnavogi um smíði og hönnun skipanna tveggja sem ætluð voru til að þjónusta olíuiðnað í norðurhöfum.

Eftir afhendingu fyrra skipsins, Polarsyssel kom í ljós að minni verkefni voru fyrir skipið en áður hafði verið talið, var þá smíði Fáfnir Víking seinkað, sett í annað félag, og síðar rifti norska félagið samningnum.

Hefur Fáfnir Viking legið síðan það var dregið frá Tyrklandi þar sem smíðin fór fram legið við bryggju í Noregi. Fær kanadíska félagið Atlantic Towing skipið afhent á næsta ári, og mun það þá heita Atlantic Harrier.

Bjarni Ármannsson var stjórnarformaður Fáfnis, og dótturfélags þess, en Steingrímur Erlingsson var stofnandi Fáfnis og framkvæmdastjóri þess þar til honum var sagt upp í árslok 2015.

Mikið tap var á rekstri félagsins, 50 milljónir árið 2014, en árið 2016 hugðist félagið gefa út skuldabréf fyrir 195 milljónir króna. Árið 2015 nam taprekstur Fáfnis Offshore þó 2 milljörðum króna, en 245 milljónum árið 2016.

Samkvæmt ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra er Fáfnir Offshore enn starfandi, en Jóhannes Hauksson er stjórnarformaður þess.

Hér má lesa frekari fréttir um Fáfni: