Dagana 22.-24. ágúst næstkomandi mun Búnaðarsamband Suðurlands standa fyrir landbúnaðarsýningu á Gaddstaðaflötum við Hellu. Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hér á landi í langan tíma og er haldin í tilefni 100 ára afmælis Búnaðarsambands Suðurlands.

Jóhannes Hr. Símonarson, framkvæmdastjóri sýningarinnar, segir sýninguna vera þróunar- og tæknisýningu sem eigi að hafa það hlutverk að kynna hlutverk og stöðu íslensks landbúnaðar.

„Sýningin er í raun bæði hugsuð sem fagsýning fyrir bændur og aðra þá sem tengjast landbúnaði og síðan sem sýning fyrir almenning í landinu.“ Á sýningunni munu bændur m.a. kynna ýmsar afurðir sínar, bæði þeir sjálfir og í gegnum afurðarstöðvar sínar, t.d. MS og SS, sem eru í þeirra eigu.

Gestum verður boðið að bragða á íslenskum landbúnaðarafurðum, fylgjast með rúningi kinda og boðið verður upp á smalahundasýningu, gangtegundasýningu og skeiðkeppni svo eitthvað sé nefnt.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .